Biðst afsökunar á skrifum um „marglita dulu“

Advania skipti út sínum hefðbundna fána fyrir hinsegin fána þegar …
Advania skipti út sínum hefðbundna fána fyrir hinsegin fána þegar Mike Pence kom til landsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrrverandi skólastjórinn Guðmundur Oddsson og formaður Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar hefur beðið félagsmenn í GKG afsökunar á grein sem hann skrifaði og birtist í Morgunblaðinu í gær. Þar spurði Guðmundur meðal annars hvort búið væri að skipta þjóðfána Íslendinga út fyrir marglita dulu; regnbogafánann.

Tilefni skrifa Guðmundar var heimsókn Mikes Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til landsins í síðustu viku. Ýmis fyrirtæki og stofnanir flögguðu regnbogafánanum vegna íhaldssamra skoðana Pence.

Það má vel vera að þessi varaforseti hafi einhverjar vafasamar skoðanir á hinum ýmsu kynhvötum manna, en er þetta ekki fulllangt gengið í galskapnum? Mér finnst að þessi karl megi bara hafa sínar skoðanir á málum og við Íslendingar, sem teljum okkur vera umburðarlyndastir allra þjóða, verðum bara að una því að aðrir séu okkur ekki sammála,“ skrifaði Guðmundur meðal annars.

Hann gagnrýndi hinsegin daga og sagðist ekki átta sig á á hvaða vegferð við værum. 

Ég hef orðið þess áskynja að ég hafi sært ákveðna félagsmenn með þessari grein, það var aldrei ætlunin. Mér þykir það leitt og bið þá sem það á við innilegrar afsökunar,“ skrifaði Guðmundur meðal annars í tölvupósti sem sendur var á félagsmenn í GKG í kvöld.

Grein Guðmundar geta áskrifendur nálgast hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert