„Er eitthvað til ráða?“

Inga Sæland á Alþingi í kvöld.
Inga Sæland á Alþingi í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, spurði hvað hefði verið gert í málefnum þeirra sem minna mega sín í samfélaginu síðan hún og flokkur hennar komst á þing fyrir tveimur árum. Hún sagði það þyngra en tárum tæki að sama og ekkert hefði gerst. 

Ólíkt flestum öðrum þingmönnum sem ræddu um stefnuræðu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra flutti Inga ræðu sína blaðalaust.

Stjórnarliðar höfðu talað vel um væntanlegar skattalækkanir sem kynntar hafa verið í fjármálaáætlun næsta árs. Inga spurði hins vegar hvers vegna það væri verið að hrópa húrra fyrir skattalækkun upp á tíu þúsund krónur sem yrði að veruleika eftir tvö ár.

„Á sama tíma fá forstjórar ríkisfyrirtækja og bankastjórar vel yfir milljón í launahækkun á mánuði,“ sagði Inga og var augljóslega mikið niðri fyrir.

Hún sagði að væntanlegar skattalækkanir handa þeim tekjulægstu væru ekki neitt neitt. „242 þúsund krónur verða 252 þúsund krónur eftir tvö ár. Þessi frábæra velferðarstjórn hefur skilað því til fátækra,“ sagði Inga í kaldhæðnistón.

Hún nefndi að um tíu prósent barna liðu enn skort og stór hluti barna lifði hluta úr mánuði hverjum á núðlupökkum sem kosta 25 krónur. Auk þess minntist hún á langa biðlista eldri borgara sem hefðu ekki efni á að leita sér lækninga eða lyfja. 

Eigi ekki að skattleggja fátækt

Er eitthvað til ráða?“ spurði Inga og svaraði því fljótt sjálf að auðvitað væri hægt að gera eitthvað. „Bara ef við stöndum saman og framkvæmum í stað þess að tala hér og þykjast vera rosalega góð.“

Hún sagði Flokk fólksins vera með lausnir og að þær hefði hún boðað ítrekað. Einhver stefnumál hennar hefðu gengið eftir og það væri gott. „En hvers vegna erum við enn að skattleggja fátækt?“

Hún sagði að 50% launþega hefðu 441 þúsund krónur á laun í mánuði fyrir skatt. „Hve stór hluti af þeim er fjölskyldufólk með börn? Hvað geta þessir foreldrar veitt börnunum sínum? Eins og einn ráðherra sagði áðan; frelsi til að njóta sín og skara fram úr í íþróttum. Nei, þau búa ekki við neitt frelsi. Þau búa í fjötrum fátæktar. Það virðist þingheimur aldrei ætla að geta skilið,“ sagði Inga. 

Hún sagði að það væri þingheims að reyna að jafna kjörin. Það væri kominn tími til að gefa Flokki fólksins tækifæri til að standa við stóru orðin. „Við erum með fjármagn og lausnir. Við viljum ekki skattleggja fátækt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert