„Gefum okkur þennan mánuð“

BÍ og SA funduðu hjá ríkissáttasemjara í dag. Næsti fundur …
BÍ og SA funduðu hjá ríkissáttasemjara í dag. Næsti fundur hefur ekki verið ákveðinn en vinnufundur smærri hópa fer fram í næstu viku þar sem unnið verður að ýmsum sérmálum.

„Við gefum okkur þennan mánuð til að reyna að klára þetta og ég held að þetta geti skýrst í næstu viku,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, í samtali við mbl.is. Fulltrúar Blaðamannfélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins funduðu hjá ríkissáttasemjara í dag. Viðræðunum var vísað til sátta­semj­ara í lok maí en samn­ing­ar blaðamanna hafa verið laus­ir frá 1. janú­ar. 

Hjálmar segir línur vera að skýrast en að ýmis sérmál eigi enn eftir að semja um. „Við munum halda áfram að ræða saman í smærri hópum í næstu viku og taka fyrir ákveðin ágreiningsmál og reyna að leysa þau,“ segir hann. 

Málin sem um ræðir snúa að einstökum miðlum og varða til dæmis höfundarrétt, vinnutíma, vaktavinnufyrirkomulag og endurmenntunarleiðir, að sögn Hjálmars. Í framhaldi vinnufundarins í næstu viku verður ákveðið hvenær næsti fundur fer fram hjá ríkissáttasemjara. 

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.

Eingreiðslu til félagsmanna hafnað

Möguleiki um eingreiðslu til félagsmanna hefur verið meðal þess sem rætt hefur verið en því hefur nú verið hafnað. „Þá var það bara þannig, við vinnum út frá þeirri forsendu og reynum að klára þetta sem fyrst, þetta má ekki dragast mikið lengur,“ segir Hjálmar.  

Þá segir hann að á meðan viðræður standa yfir komi ekki til greina að beita þrýstiaðgerðum, svo sem verkföllum. „En það er það úrræði sem við höfum náum við ekki til lands. Ég trúi því að við náum samningum, það er best fyrir báða aðila. Það er búið að teikna stóru línurnar í samningum sem gerðir hafa verið og við erum ekki að fara út fyrir þær línur. En við verðum auðvitað að klára þau mál sem lúta sérstaklega að kjörum blaðamanna og þeirra vinnuumhverfi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert