Land ekki eins og hver önnur fasteign

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra og formaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í …
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra og formaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði að það væri tilvalið að líta um öxl á miðju kjörtímabili og skoða árangur ríkisstjórnar Framsóknar, VG og Sjálfstæðisflokks. Árangurinn hingað til væri að hans mati mjög góður.

Sigurður nefndi að þessi „einstaka pólitíska samsetning“ hefði skilað gríðarlegum árangri þegar aðilar á vinnumarkaði skrifuðu undir lífskjarasamninga síðasta vetur. Þar hefði aðkoma ríkisstjórnarinnar skipt höfuðmáli til að ná niðurstöðu sem tryggði stöðugleika. Vextir hefðu lækkað jafnt og þétt upp frá því en Sigurður sagði það eitt helsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja á landinu.

Á næstu mánuðum sjá landsmenn ríkisstjórnina standa við sinn hlut samninganna þegar á borð Alþingis kemur lækkun tekjuskatts, sérstaklega hjá lág- og millitekjuhópum, frumvörp um stuðning við leigjendur og aukinn stuðning við kaup á fasteignum svo eitthvað sé nefnt,“ sagði Sigurður.

Ánægður með ráðherra Framsóknarflokks

Auk hans eru Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, ráðherrar úr Framsóknarflokki í ríkisstjórn. Sigurður sagði að þau Lilja og Ásmundur hefðu unnið gott starf og minntist til að mynda á lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði.

„Af því sem ríkisstjórnin hefur áorkað er það ekki síst ánægjulegt að heilbrigðisstefna var samþykkt á síðasta þingi en hún á sér aðdraganda frá þar síðasta kjörtímabili undir forystu framsóknar. Það eru sjálfsögð mannréttindi að allir hafi jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, stöðu eða búsetu,“ sagði Sigurður.

Jarðamálin áfram í brennidepli

Ráðherra minntist á jarðamál, sem hafa verið til umræðu í sumar. Hann sagði að þau yrðu í brennidepli á næstu mánuðum. Brýnt væri að setja skýrar reglur um kaup og sölu á jörðum.

Þróun síðustu ára er algjörlega óviðunandi. Land er ekki eins og hver önnur fasteign. Við verðum að horfa til nágrannaþjóða okkar um það hvernig jarðamálum er best búin umgjörð. Vil ég í þeim efnum sérstaklega horfa til Danmerkur og Noregs sem hafa stífa umgjörð og hafa haft hana lengi,“ sagði ráðherra.

Sigurður sagði að lífsgæði og tækifæri þeirra sem byggju utan höfuðborgarsvæðisins byggðust á skynsamlegri nýtingu landsins og samspili við verndun. Ekki gæti orðið svo að engin þróun yrði í atvinnumálum út um land. „Íslendingar eru að sönnu góðir gestgjafar en landið og náttúran er ekki aðeins fyrir gesti, innlenda og erlenda, heldur fyrir þá sem kjósa að búa sér heimili og byggja upp starfsemi vítt og breitt um landið,“ sagði Sigurður. Landsbyggðin eigi ekki að vera safn um liðna tíma.

Stórsókn í samgöngumálum

Samgönguráðherra sagði að veruleg umskipti hefðu orðið í samgöngumálum frá upphafi kjörtímabils og blásið til stórsóknar á öllum sviðum, víða um land. Uppbygging væri hraðari, hvort sem litið væri til landsbyggðar eða höfuðborgarsvæðisins.

Ríkisstjórnin hefur skýra sýn hvað varðar lífsgæði og tækifæri á Íslandi og metnað til að gera stöðugt betur. Það er gott að búa á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert