„Ósamstiga og hugmyndasnauð ríkisstjórn“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í ræðustól Alþingis í kvöld.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í ræðustól Alþingis í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vaxandi eignaójöfnuður var umfjöllunarefni Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, í ræðu hans á Alþingi í kvöld. Sagði hann forsætisráðherra hafa eytt óþarflega fáum orðum í hversu eitrandi áhrif vaxandi eignaójöfnuður hefði á samfélög, líka Ísland. Hér væri allt klippt og skorið á yfirborðinu, gott að meðaltali, en þegar betur væri að gáð blasti við talsvert óréttlæti. 

„Þótt það sé vissulega ánægjulegt að verkalýðshreyfinginn hafi knúið fram skattalækkun á lágar og meðaltekjur er galið að láta hana ganga upp allan stigann. Í stað þess að láta ofsaríkt fólk leggja meira af mörkum er gerð aðhaldskrafa á velferðarþjónustuna sem er látin bera uppi niðursveiflu í kólnandi hagkerfi. Tekjulægra fólkið, sem ekki naut uppgangsins, mun lenda í  erfiðleikum, en þau 5% prósent landsmanna sem eiga jafnmikið og hin 95% prósentin sigla lygnari sjó,“ sagði Logi.

Sagði hann jafnframt að það ætti ekki að skapa einstæðri móður stórkostlegan vanda ef úlpa barnsins týndist, börn ættu ekki að vera á hrakhólum milli skólahverfa vegna ótryggs leigumarkaðar og gamalt fólk ætti ekki að þurfa að neita sér um læknisþjónustu vegna auraleysis. Enn fremur sagði hann að efnalítið fólk þyrfti að neita sér um menningu, listir, íþróttir og hluti sem ekki væru aðeins krydd í brauðstritinu, heldur jafn nauðsynlegir manninum og súrefni, svefn og vatn. 

Síðar bætti hann við: „Ríkisstjórnin boðar engar grundvallaraðgerðir sem munu breyta núverandi stöðu. Efnahagsstjórnin er á forsendum Sjálfstæðisflokksins og það mun ekki færa okkur nær velsældarmarkmiðunum sem hæstvirtur forsætisráðherra talaði um hér áðan.“

Treysta sér ekki í aðgerðir í loftslagsmálum

Logi ræddi einnig um loftslagsmál og sagði að forsætisráðherra hefði réttilega nefnt neyðarástand vegna hamfarahlýnunar af mannavöldum. Þó væði uppi málflutningur þar sem sem staðreyndum er hafnað og kynt undir ósætti. „Samt treystir ríkisstjórnin sér ekki til að ráðast í aðgerðir í loftlagsmálum sem uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Og í stað þess að boða nánari samvinnu við Evrópuríki, sem leiða aðgerðir í loftslagsmálum, eygja þau frekar tækifæri í samstarfi við stórveldi með leiðtoga sem sjá skammtímaávinning í glundroða,“ sagði hann.

Logi talaði einnig um þróun í tækni, og nefndi bæði kosti og galla er gætu fylgt aukinni tæknivæðingu. Þar barst talið að nýrri stjórnarskrá og sagði Logi: „Hugvit er okkar verðmætasta auðlind og sú eina sem er óþrjótandi. Nýleg umræða um aðra auðlind, orkuna, öskrar á að vilji þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá verði virtur. Og þótt hæstvirtur forsætisráðherra vilji það ef til vill er rétt að minna hann á að hún myndaði ríkisstjórn með tveimur flokkum sem börðust hatrammlega gegn nýrri stjórnarskrá fyrir fáeinum árum og ósennilegt að þeim hafi snúist hugur.“ 

Í lokaorðum ræðunnar sagði Logi meðal annars að eins fallegt og það kynni að hljóma að mynda ríkisstjórn eftir endilöngu pólitíska litrófinu dygði slíkt ekki. Ósamstiga og hugmyndasnauð ríkisstjórn, sem hvorki væri sammála um leiðir né markmið, myndi ekki bjóða upp á lausnir við þeim flóknu viðfangsefnum sem biðu.

mbl.is