Samráðsgátt um fjárhagsáætlun Kópavogs

Frá Kópavogi.
Frá Kópavogi. mbl.is

Kópavogur leitar eftir ábendingum frá íbúum vegna fjárhagsáætlunar ársins 2020. Rafræn samráðsgátt hefur verið opnuð, og eru íbúar fæddir árið 2006 eða eldri hvattir til að skrá sig inn og koma með ábendingar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kópavogsbæ en hægt er að skrá sig inn hér.

„Fjárhagsáætlun er eitt mikilvægasta verkefni bæjarstjórnar á hverju ári. Í ljósi þess að við höfum verið að leggja áherslu á samráð við íbúa bæjarins var ákveðið að opna samráðsgátt sem vonandi skilar sér í enn betri fjárhagsáætlun,“ er haft eftir Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra Kópavogs.

Þeir íbúar sem sem eru með rafræn skilríki og eru fæddir árið 2006 og fyrr geta tekið þátt í gegnum samráðsgáttina. Öðrum áhugasömum er bent á að senda ábendingar á netfangið hvertfarapeningarnir@kopavogur.is.

Samráðsgáttin verður opin til 25. september. Kjörnir fulltrúar munu hafa ábendingar frá íbúum til hliðsjónar við gerð fjárhagsáætlunar Kópavogs fyrir næsta ár.

mbl.is