Skjálfti af stærðinni 3,4 nálægt Grindavík

Skjálftinn varð um 3 km norðaustur af Grindavík.
Skjálftinn varð um 3 km norðaustur af Grindavík. Kort/Veðurstofa Íslands

Jarðskjálfti af stærðinni 3,4 varð klukkan 6:06 í morgun um 3 km norðaustur af Grindavík. Veðurstofan greinir frá þessu og segir tilkynningar þegar hafa borist um að skjálftinn hafi fundist í byggð.

Jarðskjálftanum hafa fylgt nokkrir minni skjálftar sem allir hafa verið undir 1,9 að stærð. Enginn órói sést þá á mælum að sögn Veðurstofunnar, sem kveður jarðskjálfta algenga á þessu svæði.

Sigríður Magnea Óskarsdóttir, sérfræðingur á skjálftasviði Veðurstofunnar, segir í samtali við mbl.is að skjálftinn hafi orðið á landi á um þriggja kílómetra dýpi. Hún segir ómögulegt að áætla hvort fleiri stórir skjálftar muni fylgja í kjölfarið. „Þetta er þó þekkt sprungusvæði,“ segir hún og kveður Veðurstofuna munu fylgjast vel með þróun mála.

mbl.is