Þráinn ráðinn framkvæmdastjóri VITA

Þráinn Vigfússon.
Þráinn Vigfússon. Ljósmynd/Aðsend

Þráinn Vigfússon hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar VITA, dótturfélags Icelandair Group. Hann tekur við af Herði Gunnarssyni sem hefur byggt upp og leitt félagið í tæpan áratug.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Þar segir að Þráinn hafi áralanga reynslu af stjórnunarstörfum í ferðaþjónustu og hafi starfað sem fjármálastjóri VITA og Iceland Travel síðastliðin 10 ár.

Áður starfaði hann sem framkvæmdastjóri Kynnisferða, eða á árunum 2004 til 2007, eftir að hafa starfað sem fjármálastjóri fyrirtækisins frá árinu 1996. Þá hefur hann gegnt trúnaðarstörfum fyrir Samtök ferðaþjónustunnar og setið í stjórnum nokkurra ferðaþjónustufyrirtækja.

Þráinn er með cand. oecon-gráðu af endurskoðunarsviði frá Háskóla Íslands.

mbl.is