Ákærður fyrir að telja ekki fram 30 milljóna tekjur

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Karlmaður á sextugsaldri hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, en hann er ákærður fyrir að hafa ekki gert grein fyrir tekjum upp á 30,1 milljón á árunum 2012 og 2013 og komist þannig hjá því að greiða 11,7 milljónir í tekjuskatt og útsvar.

Samkvæmt ákærunni lét maðurinn undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtölum sínum tekjur sem komu inn á bankareikninga í hans eigu frá þremur erlendum félögum sem öll voru í hans eigu.

Fer saksóknari fram á að maðurinn verði dæmdur til refsingar og til að greiða allan sakarkostnað vegna málsins.

mbl.is