Aukin ógn kalli á aukið norrænt samstarf

Í umræðum sínum á fundunum horfðu ráðherrarnir til austurs, vesturs ...
Í umræðum sínum á fundunum horfðu ráðherrarnir til austurs, vesturs og norðurs. mbl.is/Theódór

„Bönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna styrkjast með hverju árinu. Við stöndum fyrir sameiginlegum gildum og styðjum marghliða samvinnu og alþjóðlegt skipulag byggt á reglum, sem er undir sívaxandi ógn.“

Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á blaðamannafundi sínum ásamt þeim Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, og Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, að loknum fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í Borgarnesi í dag.

„Það hefur verið mikill heiður að fá að halda fundi ráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna hér í Borgarnesi, heimabæ mínum, sem hluta af formennsku Íslands í nefndunum tveimur,“ sagði Guðlaugur Þór, en í gær funduðu ráðherrar Norðurlandanna (N5) og um kvöldið bættust ráðherrar Eystrasaltsríkjanna við (NB8).

Guðlaugur Þór var ánægður með að fá að sýna kollegum ...
Guðlaugur Þór var ánægður með að fá að sýna kollegum sínum heimabæinn. mbl.is/Theódór

Í umræðum sínum á fundunum horfðu ráðherrarnir til austurs, vesturs og norðurs, auk þess sem þeir ræddu málefni loftslagsbreytinga og hafsins, og samband sitt við stærri ríki.

Heimurinn breyst gríðarlega frá Stoltenberg-skýrslunni

Þá minntist Guðlaugur Þór sérstaklega á það að ráðherrar Norðurlandanna hefðu samþykkt að vinna að enn sterkara sambandi í utanríkis- og öryggismálum, með hliðsjón af skýrslu sem unnin var í tilefni 10 ára afmælis Stoltenberg-skýrslunnar. „Heimurinn hefur breyst gríðarlega á síðustu tíu árum og Norðurlöndin þurfa að meta þessar breytingar og meta hvernig þær kalli á aukið norrænt samstarf.“

Þá væri mikilvægt að ræða nýjar ógnir við Eystrasaltsríkin, sem hefðu aukið getu sína til að takast á við tölvu- og blandaðar árásir, sem væri mikilvægt í samstarfi bæði Atlantshafsbandalagsins sem og norrænu samstarfsaðilanna.

„En við þurfum einnig að skoða öryggi í víðara samhengi. Við höfum öll samþykkt að takast saman á við áskoranir tengdar umhverfinu og að efla sjálfbærni á norðurslóðum og annars staðar. Þá munum við í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar og önnur alþjóðleg samstarfsverkefni vinna að vernd réttarríkisins, mannréttinda, lýðræðis og frelsis.“

Á fundum gærdagsins og dagsins í dag sátu auk þeirra Guðlaugs Þórs, Kofod og Linde þau Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, Linas Linkevičius, utanríkisráðherra Litháens, og Edgars Rinkēvičs, utanríkisráðherra Lettlands.

mbl.is