Aukin ógn kalli á aukið norrænt samstarf

Í umræðum sínum á fundunum horfðu ráðherrarnir til austurs, vesturs …
Í umræðum sínum á fundunum horfðu ráðherrarnir til austurs, vesturs og norðurs. mbl.is/Theódór

„Bönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna styrkjast með hverju árinu. Við stöndum fyrir sameiginlegum gildum og styðjum marghliða samvinnu og alþjóðlegt skipulag byggt á reglum, sem er undir sívaxandi ógn.“

Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á blaðamannafundi sínum ásamt þeim Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, og Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, að loknum fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í Borgarnesi í dag.

„Það hefur verið mikill heiður að fá að halda fundi ráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna hér í Borgarnesi, heimabæ mínum, sem hluta af formennsku Íslands í nefndunum tveimur,“ sagði Guðlaugur Þór, en í gær funduðu ráðherrar Norðurlandanna (N5) og um kvöldið bættust ráðherrar Eystrasaltsríkjanna við (NB8).

Guðlaugur Þór var ánægður með að fá að sýna kollegum …
Guðlaugur Þór var ánægður með að fá að sýna kollegum sínum heimabæinn. mbl.is/Theódór

Í umræðum sínum á fundunum horfðu ráðherrarnir til austurs, vesturs og norðurs, auk þess sem þeir ræddu málefni loftslagsbreytinga og hafsins, og samband sitt við stærri ríki.

Heimurinn breyst gríðarlega frá Stoltenberg-skýrslunni

Þá minntist Guðlaugur Þór sérstaklega á það að ráðherrar Norðurlandanna hefðu samþykkt að vinna að enn sterkara sambandi í utanríkis- og öryggismálum, með hliðsjón af skýrslu sem unnin var í tilefni 10 ára afmælis Stoltenberg-skýrslunnar. „Heimurinn hefur breyst gríðarlega á síðustu tíu árum og Norðurlöndin þurfa að meta þessar breytingar og meta hvernig þær kalli á aukið norrænt samstarf.“

Þá væri mikilvægt að ræða nýjar ógnir við Eystrasaltsríkin, sem hefðu aukið getu sína til að takast á við tölvu- og blandaðar árásir, sem væri mikilvægt í samstarfi bæði Atlantshafsbandalagsins sem og norrænu samstarfsaðilanna.

„En við þurfum einnig að skoða öryggi í víðara samhengi. Við höfum öll samþykkt að takast saman á við áskoranir tengdar umhverfinu og að efla sjálfbærni á norðurslóðum og annars staðar. Þá munum við í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar og önnur alþjóðleg samstarfsverkefni vinna að vernd réttarríkisins, mannréttinda, lýðræðis og frelsis.“

Á fundum gærdagsins og dagsins í dag sátu auk þeirra Guðlaugs Þórs, Kofod og Linde þau Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, Linas Linkevičius, utanríkisráðherra Litháens, og Edgars Rinkēvičs, utanríkisráðherra Lettlands.

mbl.is