Braust inn til að hlýja sér

Lögreglunni barst tilkynning um að það væri maður að brjóta rúðu í bifreið í Vesturbænum (hverfi 107) á þriðja tímanum í nótt. Er lögreglumenn komu á vettvang sat maðurinn í bifreiðinni og sagði engin verðmæti vera í bifreiðinni og að sér væri kalt.  

Maðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem hann var síðan vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Maðurinn var með opinn hníf í vasanum. Hann er eftirlýstur hjá lögreglu vegna rannsóknar mála.

Starfsmenn hótels við Laugaveg höfðu samband við lögreglu í gærkvöldi vegna manns í annarlegu ástandi. Maðurinn var með ónæði og hafði stolið söfnunarbauk sem hann var síðan að reyna að opna. 

Lögreglan handtók manninn og vistaði í fangageymslu sökum ástands. Maðurinn lét mjög illa og reyndi að sparka frá sér. „Við vistun mun lögreglukona hafa fengið munnvatn/hráka í andlitið  frá manninum en hann er skráður sýktur,“ segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu án þess að þar komi fram um hvaða sjúkdóm sé að ræða.

mbl.is