Ekki svipað málum þar sem ríkið var brotlegt

Jón Þór Birg­is­son, söngv­ari Sig­ur Rós­ar og Orri Páll Dýrason, …
Jón Þór Birg­is­son, söngv­ari Sig­ur Rós­ar og Orri Páll Dýrason, fyrrverandi trommari sveitarinnar faðmast fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur þegar mál gegn þeim var þingfest. mbl.is/Eggert

Ásmunda B. Baldursdóttir saksóknari hafnar því að mál Orra Páls Dýrasonar, fyrrverandi trommara Sigur Rósar, sé svipað málum þar sem Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi íslenska ríkið brotlegt vegna endurtekinnar málsmeðferðar.

Tekist var á um frávísun vegna meintra skattalagabrota liðsmanna Sigur Rósar í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. 

Verjandi liðsmanna Sigur Rósar vísaði til að mynda til máls Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar en MDE komst að þeirri niðurstöðu fyrir tveimur árum að ríkið hefði brotið gegn þeim á grundvelli banns við endurtekinni málsmeðferð.

Saksóknari sagði að málsmeðferð í skattamálum á Íslandi bryti ekki gegn ákvæðum MDE að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Verjanda varð tíðrætt um þann langa tíma sem málsmeðferð hefði tekið, allt frá því að skattrannsóknarstjóri hóf rannsókn á meintum brotum fyrir þremur árum og átta mánuðum.

Saksóknari benti hins vegar á að önnur mál hefðu tekið mun lengri tíma í meðferð. Tími ætti ekki að hafa áhrif á niðurstöðu eða það að málinu yrði mögulega vísað frá dómi.

Ásmunda ítrekaði kröfur ákæruvaldsins og lagði málið í niðurstöðu dómsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert