„Hélt að ég myndi horfa á hann deyja“

Maður á brún Skógarfoss.
Maður á brún Skógarfoss. Ljósmynd/Nora McMahon

Nora McMahon var stödd ásamt eiginmanni sínum Kevin Poulsen á útsýnispalli ofan við Skógafoss þegar hún sá mann standa úti í ánni við fossbrúnina. „Ég hélt að ég myndi horfa á hann deyja,“ segir hún og er ósátt við vanvirðinguna sem slíkir ferðamenn sýni Íslandi.

McMahon var stödd á Seyðisfirði þegar mbl.is náði sambandi við hana, en þau hjónin eru að ferðast um Ísland í húsbíl þessa dagana.

Þau höfðu ekki verið lengi á ferðinni þegar þau stoppuðu við Skógafoss. „Við vorum að keyra um Suðurland, skoða alla fossana og gera allt það sem ferðamenn gera og vorum svolítið á eftir áætlun þegar við komum að Skógafossi,“ segir hún. „Það fyrsta sem við gerðum var að ganga að fossinum og upplifa kraftinn frá honum. Svo sagðist ég vilja labba upp á brún til að sjá hann ofan frá, þannig að við fórum á útsýnissvæðið.“

Nora McMahon og eiginmaður hennar Kevin Poulsen í Íslandsheimsókninni sem …
Nora McMahon og eiginmaður hennar Kevin Poulsen í Íslandsheimsókninni sem hún segir hafa farið fram úr sínum björtustu vonum. Ljósmynd/Nora McMahon

Virkaði stressaður

Þegar þau horfðu í átt að fossinum sáu þau manninn og segir McMahon hann hafa virkað svolítið stressaðan. „Í fyrstu áttaði ég mig ekki á því hvað var að gerast því ég var eiginlega í áfalli, en svo varð ég hrædd því ég hélt að ég myndi verða vitni að því að hann hrapaði til bana.“

Hún segir hann hafa klöngrast út að brún fossins og þar sem hún var með símann í hendinni hafi hún ákveðið að taka mynd af uppátækinu. „Með þessu vildi ég ekki hampa honum heldur hugsaði ég að ef lögregla kæmi á staðinn þá væri ég með það fest á mynd hver maðurinn væri.“

Að því loknu sneri hún baki í fossinn. „Ég gat ekki hugsað mér að horfa, af því að ég óttaðist að þá myndi ég horfa á hann deyja.“

Þriggja manna fjölskylda var með þeim hjónum á útsýnispallinum og segir McMahon þá konu einnig hafa snúið sér undan. „Hún var líka skelfingu lostin,“ segir hún og kveðst hafa beðið mann sinn að láta sig vita hvort maðurinn hefði þetta af, sem hann og gerði.

McMahon segir þau svo hafa séð er maðurinn hljóp í átt að tveimur öðrum ungum mönnum með myndavélar. „Þeir hlógu, föðmuðust og gáfu hver öðrum fimmur. Allir aðrir sem þarna voru horfðu hins vegar á og trúðu varla hverju þeir hefðu orðið vitni að.“

McMahon smellti af mynd þegar maðurinn og félagar hans hlupu …
McMahon smellti af mynd þegar maðurinn og félagar hans hlupu framhjá á leið sinni niður að fossinum, sem þeir fóru svo bak við. Ljósmynd/Nora McMahon

Skilur þreytu í garð ferðamanna

Því næst hlupu mennirnir framhjá þeim og niður þrepin meðfram fossinum. McMahon smellti einnig mynd af þá með það í huga að lögregla gæti þekkt hann ef þörf reyndist á.

„Mér fannst þetta sýna svo mikla vanvirðingu,“ segir hún. Er þau komu aftur niður á jafnsléttu og voru að ganga á brott frá Skógafossi heyrðu þau óp og fréttu svo frá öðrum ferðamönnum að maðurinn og vinir hans hefðu farið aftur fyrir fossinn. „Við vorum full óbeitar og trúðum varla hvað við höfðum séð,“ segir McMahon.

„Ég hafði heyrt að Íslendingar væru orðnir þreyttir á ferðamönnum og ég skil vel hvers vegna ef það kemur mikið af fólki hingað sem vanvirðir allar öryggisreglur til þess eins að ná instagrammyndum.“ 

McMahon á íslenskan vin sem er búsettur í Bandaríkjunum og segir hún hann hafa brýnt vel fyrir þeim að fylgja öllum reglum á þeim stöðum sem þau heimsæktu. „Augljóslega hélt hann ekki að við færum að gera eitthvað svona, en hann sagði að við þyrftum að sýna landinu virðingu. Ég áttaði mig hins vegar ekki á samfélagsmiðlafárinu fyrr en ég kom hingað.“ 

Í tískumyndatöku bak við Gljúfrabúa

Spurð hvort hún hafi orðið vör við undarleg uppátæki fleiri ferðamanna segir hún svo vera. „Það var ekkert svona bilað,“ segir McMahon. „En þegar við vorum við Gljúfrabúa og fórum bak við fossinn, í regnfatnaði eins og aðrir, sáum við þar unga konu sem var að reyna að láta taka tískumynd af sér í fossinum. Hún var í síðu pilsi og toppi,“ rifjar hún og segir uppákomuna hafa verið fáránlega. 

Konan og maðurinn sem tók myndirnar hafi bæði verið rétt skriðin yfir tvítugt og líkt og með manninn við Skógafoss séu þau dæmi um kynslóð sem alist hafi upp á samfélagsmiðlum. „Það er þessi kynslóð með áhrifavaldana sem vilja taka myndir af því sem er ekki þeirra raunverulega líf heldur frekar hápunktar þess sem þau vilja að við teljum líf þeirra vera,“ segir McMahon og bætir við að svo virðist sem maðurinn við Skógafoss hafi verið einn slíkur áhrifavaldur.  

McMahon segist hafa óttast að hún myndi horfa á eftir …
McMahon segist hafa óttast að hún myndi horfa á eftir manninum fara fram af brúninni. Ljósmynd/Nora McMahon

Áhrifavaldur með 18.000 fylgjendur

Hún segir að það fyrsta sem hún hafi sagt við mann sinn er þau sáu hann á fossbrúninni var:  „Ég vona að þetta sé ekki Bandaríkjamaður.“ Hún hlær en segir að því miður virðist svo vera þar sem einn vina sinna hafi sent sér hlekk á instagramsíðu manns með eina 18.000 fylgjendur sem óneitanlega líkist manninum sem þau sáu.

„Hann birti á Instagram mynd af sér berum að ofan og í sömu stuttbuxum vera að klífa í klettinum fyrir aftan Gljúfrabúa, sem er bjánalegt því hann gat auðveldlega dottið og höfuðkúpubrotnað þar. Í færslunni sem fylgdi með var hann líka að segja að hann og vinir hans ætluðu að fara og klífa annan foss,“ segir McMahon.

Hún vill ekki gefa manninum þá athygli sem hann þráir með því að láta birta nafn hans en sendi blaðamanni slóðir á instagramsíðu mannsins og eins ljósmyndaranna, sem virðast staðfesta að svo sé.

Myndir McMahon sjálfrar af atvikinu við Skógafoss rötuðu líka víðar en hún átti von á og kveðst hún ekki hafa átt von á allri þessari athygli. „Við vorum í gærkvöldi stödd á bar á Seyðisfirði og vorum að spjalla við barþjóninn um jákvæðar og neikvæðar hliðar ferðamanniðnaðarins. Maðurinn minn spurði hann hvað væri bjánalegasta uppátæki ferðamanna sem hann hefði heyrt um og þá sagðist hann hafa verið að lesa um mann sem var uppi á fossbrún. Þá fór ég að hlæja og sagði honum að ég hefði tekið myndina.“

Vanvirðingin sem maðurinn hafi sýnt íslenskri náttúru geri sig engu að síður reiða. „Þetta land er allt svo fallegt,“ segir hún. „Ég kem hingað og mig langar að taka mynd af krafti og fegurð fossanna, en svo kemur svona fólk og lætur allt snúast um sjálft sig og að sigrast á þessum stöðum og það fer virkilega í taugarnar á mér.“

McMahon er líka ánægð með Íslandsferð þeirra hjóna. „Þetta er ótrúlegasti staður sem ég hef komið á. Það er ekki hægt að fanga fegurðina alls staðar, maður verður bara að upplifa hana. Ég var með miklar væntingar fyrir komuna og Ísland hefur farið fram úr þeim.“

mbl.is