Ítreka beiðni um fjölgun dómara

Stjórn dómstólasýslunnar áréttar mikilvægi þess að dómurum við Landsrétt verði …
Stjórn dómstólasýslunnar áréttar mikilvægi þess að dómurum við Landsrétt verði fjölgað á meðan niðurstöðu yfirdeildar MDE er beðið, sem getur tekið allt að tvö ár. mbl.is/Hallur Már

Stjórn dómstólasýslunnar hefur ítrekað fyrri yfirlýsingar um nauðsyn þess að fjölga dómurum við Landsrétt. Þetta kemur fram í bókun stjórnarinnar frá því á mánudag eftir að ljóst var að yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) mun fjalla um landsréttarmálið svokallaða. 

MDE komst að þeirri niðustöðu í mars að skipun tiltekins dómara við Landsrétt hefði falið í sér brot gegn grein mannréttindasáttmála Evrópu. Eftir að dómurinn féll hafa fjórir dómara ekki gegnt dómstörfum við réttinn. Í kjölfar dómsins fór dómstólasýslan fram á að dómurum við Landsrétt yrði fjölgað en dómsmálaráðuneytið varð ekki við því. 

Tveir dómaranna óskuðu eft­ir launuðu leyfi til ára­móta en hinir tveir ekki. Því hef­ur ein­ung­is verið ráðið í stöður dóm­ar­anna tveggja sem óskuðu eft­ir leyfi. 

Búast má við að málsmeðferð yfirdeildar taki allt að tvö ár og hefur Ingi­björg Þor­steins­dótt­ir, formaður Dóm­ara­fé­lags Íslands, bent á nauðsyn þess að Landsréttur starfi í eðlilegu umhverfi á meðan niðurstöðu yfirdeildar er beðið, til að mynda með því að fjölga dómurum. 

„Mjög brýnt er að brugðist verði við svo Landsréttur geti með viðunandi hætti sinnt hlutverki sínu. Með tilliti til þessa áréttar dómstólasýslan mikilvægi þess að dómurum við réttinn verði fjölgað,“ segir í bókun dómstólasýslunnar og hefur stjórn hennar falið formanni og framkvæmdastjóra að taka upp viðræður við ráðuneytið um málið.

mbl.is