Öryggi almennings í algjörum forgangi

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra. mbl.is/Hari

„Öryggi almennings er og verður alltaf í algjörum forgangi. Það er skylda allra aðila að tryggja það, sama hvað líður einhverjum ágreiningi um rekstrarþætti eða stjórnsýsluúttektir,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, í samtali við mbl.is. 

Landssamband lögreglumanna hefur lýst óánægju sinni með yfirstjórn ríkislögreglustjóra og fer fram á að dómsmálaráðuneytið standi að alhliða stjórnsýsluúttekt á embætti ríkislögreglustjóra. Fjölmörg lögreglufélög hafa lýst yfir stuðningi við Landssamband lögreglumanna og segir Lögreglufélag Suðurnesja að sá ágreiningur sem kominn er upp innan lögreglunnar kasti rýrð á hana og gæti á endanum komið niður á öryggi almennings. 

Áslaug Arna segist handviss um að allir aðilar sem að málinu koma séu sammála um að það verði ávallt í algjörum forgangi að tryggja öryggi almennings. „Ég hef ekki orðið vör við annað en að það sé markmið allra.“

Rík­is­end­ur­skoðun hef­ur ákveðið að gera stjórn­sýslu­út­tekt á embætti rík­is­lög­reglu­stjóra, sem fagn­ar ákvörðun­inni. Landssamband lögreglumanna hefur hins vegar farið fram á að dóms­málaráðuneyt­ið framkvæmi al­hliða stjórn­sýslu­út­tekt á embætti rík­is­lög­reglu­stjóra. 

„Við skulum sjá hvað kemur út úr úttekt ríkisendurskoðunar og þegar hún liggur fyrir munum við vanda okkur og fara í þær breytingar sem þarf,“ segir Áslaug Arna og segir hún því ekki tímabært að tjá sig um heildarendurskoðun á embætti ríkislögreglustjóra á vegum dómsmálaráðuneytisins.  

Deilurnar hafa að miklu leyti farið fram á opinberum vettvangi. Aðspurð um áhrif þess segir dómsmálaráðherra: „Ágreiningur er til að leysa úr honum með einum eða öðrum hætti.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert