Rukkað verði í stæði til kl. 20 á kvöldin

Umhverfis- og skipulagsráðráð samþykkti á fundi sínum í gær að …
Umhverfis- og skipulagsráðráð samþykkti á fundi sínum í gær að rukkað verði í bílastæði á vinsælustu stöðunum til klukkan 20 á kvöldin. mbl.is/Ómar Óskarsson

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, vekur athygli á því á Twitter að skipulags- og samgönguráð hafi samþykkt á fundi sínum í gær að rukkað verði í bílastæði á vinsælustu stöðunum til klukkan 20 á kvöldin.

„Í skipulags- og samgönguráði samþykktum við að lengja gjaldskyldutíma til kl. 20 á vinsælustu stöðum. Þá verður tekin upp gjaldskylda á sunnudögum,“ segir Pawel sem á sæti í ráðinu og lætur fylgja með myllumerkið #aðförin


 

Í fundargerð skipulags- og samgönguráðs kemur fram að lögð hafi verið fram tillaga frá umhverfis- og skipulagssviði, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar og bílastæðasjóði frá því í síðasta mánuði þar sem lagt er til að lengja gjaldskyldutíma og að rukkað verði í stæði á sunnudögum.  

Var tillagan samþykkt með atkvæðum fulltrúa Pírata, fulltrúa Viðreisnar og fulltrúa Samfylkingarinnar í ráðinu, með fyrirvara um samþykki lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá. 

Ásgerður Jóna Flosadóttir, heyrnarfulltrúi Flokks fólksins, lét hins vegar bóka að breytingarnar snerust um að „gera gera bílafólki eins erfitt fyrir og hægt sé“ að komast á bílnum í bæinn. „Afleiðingar munu ekki láta standa á sér, æ fleiri Íslendingar, íbúar úthverfa, munu hætta að leggja leið sína í bæinn. Þetta eru harkalegar aðgerðir á meðan ekki er boðið upp á strætó sem fýsilegan kost,“ sagði í bókuninni.

Í gagnbókun fulltrúa Pírata, Samfylkingarinnar og Viðreisnar er stækkun gjaldskyldra svæða og lenging gjaldskyldutíma sögð vera „í samræmi við þá stefnu sem mótuð hefur verið og útfærð í stýrihópi um bílastæðamál“. Markmiðin með því séu „betri stýring umferðar, hagkvæmari nýting stæða og auknar tekjur. Sanngjörn gjaldtaka hvetur til fjölbreyttari ferðamáta og minnkar umfang þess að fallegt borgarrými sé nýtt sem langtímageymslusvæði fyrir bíla“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert