Segir ámælisvert að alið sé á ótta

Fram kemur í fréttatilkynningu frá embætti ríkislögreglustjóra, vegna yfirlýsinga lögreglufélaga um mál er varða einkennisfatnað, bílamiðstöð embættisins og fleiri mál, að nýtt útboð vegna einkennisfatnaðar fyrir lögreglu sé tilbúið. Beðið sé hins vegar eftir að lögregluumdæmin upplýsi um magntölur.

„Dómsmálaráðuneytið tók ákvörðun um það að leggja niður bílamiðstöð ríkislögreglustjóra í júlí sl. Þá hefur ráðuneytið þegar skipað vinnuhóp til þess að koma með tillögur um nýtt fyrirkomulag á þeim málum og skilanefnd til þess að annast uppgjör. Málið er því búið að vera í höndum dómsmálaráðuneytisins frá því í júlí og óþarfi að kalla eftir því að ráðuneytið taki málið til skoðunar,“ segir ennfremur og áfram:

„Ríkislögreglustjóri fagnar tímabærri stjórnsýsluúttekt ríkisendurskoðunar enda hafði embættið frumkvæði að því að óska eftir úttekt. Í ljósi þess að framangreind atriði eru þegar í eðlilegum farvegi eru ályktanir lögreglufélaga ekki til þess fallnar að skapa frið um störf lögreglunnar og yfirlýsingar til að ala á ótta um að ágreiningur geti bitnað á endanum á öryggi almennings eru ámælisverðar.“

mbl.is