Segja Sigmund hafa vitnað í „þekkta svindlara“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Náttúruverndarsamtök Íslands segja að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hafi vitnað í þekkta svindlara þegar hann sagði alþjóðaveðurfræðistofnunina hafa varað við of­stæki í lofts­lags­mál­um. 

„Þar vitnaði hann í Global Warming Policy Forum (GWPF), bresk samtök sem afneita vísindalegum niðurstöðum um loftslagsbreytingar. Um þekkta svindlara er að ræða. Til dæmis segir í nýlegri fréttatilkynningu frá GWFP að David Attenborough hafi falsað atriði í mynd sinni Our Planet,“ segir í tilkynningu frá Náttúruverndarsamtökum Íslands.

Þar segir enn fremur að GWFP sé alls óskyld Veðurfræðistofnun Sameinuðu þjóðanna, WMO. 

„Nýverið kom fram að litlar efasemdir eru meðal landsmanna um loftslagsbreytingar. Svo hefur verið í mörg ár. Þetta veit Sigmundur Davíð mæta vel og í stað þess að andæfa vísindunum beint vitnar hann í þekkta svindlara og hefur sig upp með innihaldslausu tali um nauðsyn þess „að beita vísindum og skynsemi“,“ segja Náttúruverndarsamtökin. Þau vona að þingmenn varist slíkan málflutning í umræðum um loftslagsvána, neyðarástand sem alþjóðsamfélagið stendur frammi fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert