Tvö frelsissviptingarmál í rannsókn

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Tvö frelsissviptingarmál komu á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu síðdegis í gær. Í fyrra tilvikinu var manni rænt í Borgartúni og honum hótað með eggvopni. Í hinu tilvikinu var manni rænt og farið með hann í Heiðmörk þar sem hann var beittur ofbeldi.

Samkvæmt dagbók lögreglu tilkynnti maður um frelsissviptingu/rán klukkan 17 í gær en  maðurinn var að keyra Borgartúnið er tvær manneskjur settust inn í bíl hans, kona í framsæti og karl í aftursæti.  Maðurinn í aftursætinu mun hafa tekið upp eggvopn og hótað manninum.  Konan fór síðan úr bifreiðinni og ökumanninum sagt að aka á eftir bifreið konunnar í hverfi 113 þar sem ætlunin var að reyna að ná peningum mannsins sem varð fyrir árásinni úr hraðbanka.   

Síðan var honum sagt að aka að heimili sínu þar sem ofbeldismaðurinn fylgdi honum inn og stal lyfjum og fleiri hlutum. Er þeir voru á leið út úr íbúðinni náði maðurinn að loka útihurðinni á ofbeldismanninn og hringja í lögreglu. Málið er í rannsókn. 

Lögreglu barst tilkynning um líkamsárás í Heiðmörk við Elliðavatn á sjötta tímanum í gær.  Ungur maður sagði lögreglu að menn hefðu flutt sig þangað þar sem hann var barinn með kylfu og notuðu mennirnir úðavopn á hann. Hann var síðan látinn vaða út í vatnið og var orðinn kaldur þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang. Maðurinn var fluttur með sjúkrabifreið á bráðadeild til aðhlynningar. Málið er í rannsókn, að því er segir í dagbók lögreglunnar.

mbl.is