Beitti blekkingum til að komast inn í hús

mbl.is/Eggert

Lögreglan á Norðurlandi eystra greinir frá því á facebooksíðu sinni að fyrir viku hafi óþekktur einstaklingur komið að húsi á Akureyri og kynnt sig sem starfsmann Norðurorku og vera að lesa af mælum. Var honum hleypt inn af barni á heimilinu. Fór hann inn og út aftur.

„Þegar farið var að skoða málið kom í ljós að þarna var ekki starfsmaður Norðurorku á ferð. Starfsmenn Norðurorku eru allir í yfirhöfnum sem eru merktar Norðurorku. Þá eru þeir allir með starfsmannapassa með nöfnum og mynd af viðkomandi starfsmanni. Starfsmönnum Norðurorku er uppálagt að lesa ekki af ef enginn fullorðinn er á heimilinu.“

Lögreglan hvetur fólk til þess að brýna það fyrir börnum sínum að hleypa ekki ókunnugum inn á heimili sín. Þá er fólk hvatt til að læsa og tryggja að enginn óviðkomandi komist inn í hús þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert