Framkvæmdir við Klettaskóla milljarð fram úr áætlun

Kostnaðaráætlun vegna framkvæmda við viðbyggingu Klettaskóla hljóðaði upp á 2.952 …
Kostnaðaráætlun vegna framkvæmda við viðbyggingu Klettaskóla hljóðaði upp á 2.952 milljónir króna og voru skekkjumörk -10 % til +15%. mbl.is/​Hari

„Það eitt er rannsóknarverkefni ef allt þetta fé hefur verið notað í verkefnið og skrifað á Klettaskóla og framkvæmdir þar, því það er ómögulegt að koma tæpum milljarði á verkið á hönnunarstigi,“ segir Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, um framúrkeyrslu vegna framkvæmda við Klettaskóla.

Fjárheimildir til verksins námu 780 milljónum á árunum 2011 til 2014, samkvæmt bókun fulltrúa meirihlutans í borgarráði, en verkið var boðið út árið 2015.

„Samkvæmt lögum um opinber fjármál er það þannig að ef fjárheimildir eru ekki nýttar, þá ber að bakfæra þær. Þess vegna ætla ég á næsta borgarráðsfundi að kalla eftir öllum reikningum varðandi framkvæmdina allt aftur til ársins 2011. Ef þessar fjárheimildir hafa ekki verið færðar til baka, þá verð ég að fá að sjá alla reikninga sem liggja að baki þessari upphæð,“ segir Vigdís.

Vigdís ætlar að kalla eftir öllum reikningum vegna málsins frá …
Vigdís ætlar að kalla eftir öllum reikningum vegna málsins frá 2011. mbl.is/Styrmir Kári

Kostnaðaráætlun vegna framkvæmda við viðbyggingu Klettaskóla hljóðaði upp á 2.952 milljónir króna og voru skekkjumörk -10 % til +15%. Vegna viðbótarverkefna, endurnýjunar kennslubúnaðar, endurgerðar á eldra húsnæði og endurgerðar eldri hluta lóðar varð kostnaður 3.603 milljónir króna og raunkostnaður loks 3.950 milljónir króna.

Kennslubúnaður sé ekki hluti framkvæmda

Í svari skrifstofustjóra framkvæmda og viðhalds Reykjavíkurborgar segir að mismunur raunkostnaðar og kostnaðaráætlunar, að teknu tilliti til viðbótarverkefna, sé því 348 milljónir króna, eða 9,7%, sem sé innan skekkjumarka áætlunargerðar.

Tæpur milljarður fór að sögn Vigdísar tekinn inn á verkið áður en framkvæmdir hófust og annar tæpur milljarður í gegnum viðauka við fjárhagsáætlun. „Af hverju var þetta ekki sett inn í fjárhagsáætlun þegar verk var hafið,“ spyr hún og bendir einnig á að kennslubúnaður eigi ekki að vera hluti af framkvæmdakostnaði. „Þetta er allt saman skrifað á framkvæmdirnar en kennslubúnaður og skólagögn eiga ekki að falla undir það. Ég tel að þetta sé eftiráskýring hjá borginni til þess að koma upphæðinni upp.“

Þórdís Lóa segir að gengið hafi verið úr skugga um …
Þórdís Lóa segir að gengið hafi verið úr skugga um að allar fjárheimildir væru réttar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá vill Vigdís taka sérstaklega fram að gagnrýni hennar snúi á engan hátt að starfsemi Klettaskóla. „Þetta ætti að vera flaggskip Reykjavíkur að borginni hafi verið treyst fyrir því að sjá um þennan málaflokk. Þetta er framkvæmd á húsnæði á vegum borgarinnar, en snýr ekkert að rekstrinum og ekkert að þeirri góðu starfsemi sem þarna fer fram.“

Eigi von á skilamati vegna framkvæmdanna

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, segir í samtali við mbl.is að þegar hafi verið gengið úr skugga um að allar fjárheimildir vegna framkvæmdanna hafi verið réttar.

Þá eigi borgarráð von á skilamati um framkvæmdirnar innan skamms. „Þetta var kynnt í desember 2018, þá var farið yfir alla þætti málsins og þær breytingar sem urðu frá upphaflegum áætlunum. Það er verið að vinna skilamat og ég geri ráð fyrir því að við fáum það inn í borgarráð fljótlega.“

mbl.is

Bloggað um fréttina