Rangt að miða við upphaflega áætlun

Klettaskóli í Reykjavík.
Klettaskóli í Reykjavík. mbl.is/​Hari

Reykjavíkurborg telur að rangt sé að miða við upphaflega áætlun vegna framkvæmda við Klettaskóla í Reykjavík. Þetta kemur fram í athugasemdum sem borist hafa frá borginni vegna fréttar mbl.is um að framkvæmdirnar hafi farið einn milljarð króna fram úr áætlun þar sem rætt var við Vigdísi Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins.

„Kallað hafði verið eftir viðbyggingu og endurbótum húsnæðis og þjónustu við fötluð börn í Klettaskóla í áratugi. Um er að ræða umfangsmiklar nýframkvæmdir og endurbætur í búnaði, skólalóð og eldra húsnæði. Framkvæmdakostnaður fór fram úr áætlun sem nam 9,7% sem er innan skekkjumarka áætlunargerðar,“ segir ennfremur og áfram:

„Þá bættust við svokölluð viðbótarverk á framkvæmdatíma s.s. endurnýjun kennslubúnaðar en þróun á kennslu og hjálparbúnaði vegna fötlunar hefur verið mikil á undanförnum árum auk þess sem krafa í samfélaginu um viðunandi hjálpartæki fyrir nemendur Klettaskóla hefur aukist. Kærur nágranna vegna framkvæmdanna höfðu í för með sér breytta hönnun bygginganna m.a. með breyttri tengingu við eldra hús.“

Þá segir að í kjölfarið hafi virkjast ákvæði í byggingarreglugerð gagnvart öllu eldra húsnæði sem í heild hafi verið 3.000 fermetrar í stað þeirra 1.000 fermetra sem gert hafði verið ráð fyrir áður. „Á framkvæmdatíma var ákveðið að allt asbest í húsnæðinu yrði fjarlægt þegar í stað. Í kjölfar samráðs við foreldra voru fengin betri leiktæki á skólalóðina fyrir nemendur í takt við þarfir þeirra. Allar viðbótarfjárheimildir í verkefninu voru samþykktar af borgarráði á árunum 2015, 2016, 2017 og 2018.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert