Starfshópur skipaður um málefni aldraðra

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Ingibjörg Ólöf Isaksen, …
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Ingibjörg Ólöf Isaksen, formaður starfshópsins. Ljósmynd/Félagsmálaráðuneytið

Fyrr í þessum mánuði skipaði Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, starfshóp sem ætlað er að fjalla um málefni aldraðra á breiðum grundvelli og var fyrsti fundur hópsins haldinn í dag að því er segir í fréttatilkynningu.

Formaður hópsins er Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri og framkvæmdastjóri Læknastofa Akureyrar. Aðrir meðlimir eru Arnar Þór Sævarsson, tilnefndur af félagsmálaráðuneytinu, Guðlaug Einarsdóttir, tilnefnd af heilbrigðisráðuneytinu, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, tilnefnd af Landssambandi eldri borgara, Haukur Halldórsson, tilnefndur af Landssambandi eldri borgara, Þorbjörn Guðmundsson, tilnefndur af Landssambandi eldri borgara, Bergþóra Benediktsdóttir, tilnefnd af forsætisráðuneytinu,  og Steingrímur Ari Arason, tilnefndur af fjármálaráðuneytinu.

Fram kemur að áður hafi Ásmundur Einar skipað starfshóp um kjör aldraðra sem skilað hafi skýrslu í desember 2018 þar sem fram hafi komið tillögur um hvernig bæta megi kjör þeirra aldraðra sem búa við lökustu kjörin í þjóðfélaginu. Frumvarp þess efnis verði lagt fram í vetur. Nýja hópnum sé ætlað að skoða málefni aldraðra í víðara samhengi.

„Mikilvægt er að bregðast við yfirvofandi fjölgun í elstu aldurshópum og breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar og eru áskoranirnar af ýmsum toga. Gera þarf öldruðum kleift að auka ráðstöfunartekjur sínar með aukinni atvinnuþátttöku þegar það á við en á sama tíma þarf að tryggja fullnægjandi mönnun og þjónustu innan öldrunargeirans fyrir þá sem á þurfa að halda,“ er haft eftir Ásmundi Einari.

Ennfremur segir að verkefni hópsins séu meðal annars að fjalla um hvernig fyrirkomulagi öldrunarþjónustu verði best háttað. Einnig að fjalla um lífskjör aldraðra, lífsskilyrði, hvernig nýta megi nútímatækni betur í þágu aldraðra, hvort breyta eigi því fyrirkomulagi sem nú er í gildi varðandi greiðsluþátttöku íbúa á hjúkrunarheimilum og hvernig stytta megi biðtíma eftir hjúkrunarrýmum og bæta þjónustu.

Starfshópnum er heimilt að skila áfangaskýrslu eftir því sem vinnunni vindur fram en gert er ráð fyrir að hann skili lokatillögum í síðasta lagi vorið 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert