Vafasamt „aðsóknarmet“ slegið

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Golli

Verulega krefjandi viku fyrir starfsfólk Landspítalans er að ljúka að því er kemur fram í föstudagspistli Páls Matthíassonar, forstjóra spítalans.

„Óvenju mikill fjöldi sjúklinga hefur leitað á bráðamóttöku spítalans í Fossvogi og reyndar þannig að vafasamt „aðsóknarmet“ var slegið. Ekki var um það að ræða að þessir sjúklingar hafi ekki átt erindi til okkar því sömuleiðis hafa aldrei jafn margir beðið innlagnar á spítalann og einmitt í dag. Þetta eru ekki eftirsóknarverð met að slá og staðan á spítalanum getur orðið býsna alvarleg við þessar aðstæður,“ segir Páll.

„Við höfum ítrekað skýrt ástæður þessarar stöðu fyrir öllum sem heyra vilja (og hinum líka) og verkefnið er alls samfélagsins. Engu að síður eru það einmitt starfsmenn Landspítala sem nú þurfa að leysa úr þessari stöðu fyrir sjúklingana.“

mbl.is