Varasamt veður undir Eyjafjöllum í nótt

Vegfarendur á farartækjum sem taka á sig vind þurfa að …
Vegfarendur á farartækjum sem taka á sig vind þurfa að fara varlega. Kort/Veðurstofa Íslands

Búast má við austan 15 til 20 metrum á sekúndu og snörpum vindhviðum undir Eyjafjöllum og í Öræfum um tíma í nótt og fyrramálið. Þá má búast við vestan hvassviðri eða stormi undir Eyjafjöllum seinni partinn. Aðstæður verða varasamar fyrir farartæki sem taka á sig vind. Þetta kemur fram í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Veðurhorfur á landinu eru þannig að vaxandi austlæg átt verður í nótt með rigningu um allt land og 10 til 20 m/s í fyrramálið, talsverð rigning um tíma sunnan og suðaustan til á landinu.

Norðlægari átt þegar líður á daginn og bætir í úrkomu fyrir norðan, en vestan hvassviðri eða stormur allra syðst seinnipartinn. Það lægir vestan til annað kvöld og styttir upp.

Hiti verður á bilinu 7 til 15 stig að degi til, hlýjast suðaustanlands.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

„Á sunnudag:
Suðlæg átt, 8-13 m/s með skúrum, en lægir og léttir til NA- og A-lands. Gengur í suðvestan og vestan 13-18 SV- og V-lands síðdegis, en þykknar upp og stöku skúrir NA-til og bætir heldur í vind. Hiti 4 til 10 stig.

Á mánudag:
Vestan og norðvestan 3-10 m/s og rigning um landið N-vert og slydda til fjalla, en vestan 8-15 sunnan heiða og víða bjart. Dregur smám saman úr vindi. Hiti 3 til 10 stig, en allvíða næturfrost inn til landsins.

Á þriðjudag:
Hægviðri og skýjað með köflum, en vaxandi austanátt S- og V-lands og fer að rigna syðst seinnipartinn. Hiti breytist lítið.

Á miðvikudag, fimmtudag og föstudag:
Suðlæg átt og rigning í flestum landshlutum. Hlýnandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert