Arinbjörn vorkennir ríkislögreglustjóra

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri (t.v.) og Arinbjörn Snorrason formaður Lögreglufélags Reykjavíkur …
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri (t.v.) og Arinbjörn Snorrason formaður Lögreglufélags Reykjavíkur (t.h.).

„Ég vorkenni honum að vera búinn að koma sér í þessa stöðu,“ segir Arinbjörn Snorrason, formaður Lögreglufélags Reykjavíkur, um ummæli Haralds Johann­essen rík­is­lög­reglu­stjóra sem hann lét falla í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

Þar segir Haraldur að gagnrýni sem fram hefur komið á embættið, meðal annars af hálfu Lögreglufélags Reykjavíkur, sé hluti af markvissri rógsherferð. 

Arinbjörn segir það ekki reist á neinum rökum og kveðst gáttaður á því sem Haraldur segir í viðtalinu. „Með þessum ummælum er hann í raun að sýna fram á það sem við höfum verið að segja, að stjórnarhættir hans séu ekki til fyrirmyndar. Maður hefði haldið að maður í svona ábyrgðarstöðu myndi að vera auðmjúkur þegar svo margir innan embættisins gagnrýna hann og sjá það hjá sér að einhverju þyrfti að breyta.“

Enginn vilji leika við lögreglustjórann

Arinbjörn kveðst hafa rætt við fjölda lögreglumanna í dag. „Margir eru virkilega ósáttir. Síminn er varla búinn að stoppa í dag.“

Arinbjörn segir ummæli Haraldar í raun algjörlega óskiljanleg. „Ég skil ekki þetta viðtal eða hvað hann er að segja. Það er eins og honum líði eins og hann sé hafður einn úti í horni og enginn vilji lengur leika við hann.“

Í umræddu viðtali segir Haraldur yfirbyggingu lögreglunnar allt of mikla og segir sína skoðun þá að fækka ætti lögreglustjórum í landinu. „Langmesta yfirbyggingin er hjá honum sjálfum, innan embættis ríkislögreglustjóra,“ segir Arinbjörn um þá skoðun Haralds. 

Segir að Haraldur setji fram hótanir

Arinbjörn segir að í viðtalinu finnist óbeinar hótanir, þær setji Haraldur fram á þann hátt að ef til starfsloka hans komi muni það kalla á ítarlega umfjöllun af hans hálfu um baktjalda valdabaráttu innan lögreglunnar. 

„Það sem hann er að segja þarna er í raun bara að hann muni taka fleiri niður með sér ljúki hann störfum.“

Arinbjörn segist lítt hrifinn af deilunum við Harald. „Þetta er virkilega leiðinlegt áframhald. Ég vona að þetta muni leysast sem fyrst og allt falla í ljúfa löð.“

Har­ald­ur hef­ur sætt gagn­rýni fyrir ýmsa þætti, til dæmis vegna mála sem varða ein­kenn­is­fatnað, bílamiðstöð embætt­is­ins og stjórnarhætti Haralds. Rík­is­end­ur­skoðun hyggst gera út­tekt á embætt­inu. Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir, nýr dóms­málaráðherra, seg­ir starfs­loka­samn­ing við Har­ald til skoðunar. 

mbl.is