Braut nálgunarbann og hótaði fyrrverandi ítrekað

Konan kom upp öryggiskerfi á heimili sínu af ótta við …
Konan kom upp öryggiskerfi á heimili sínu af ótta við manninn og sagðist hafa lifað í stanslausum ótta við hann þegar hann gekk laus. AFP

Karlmaður hefur verið dæmdur í héraðsdómi í 18 mánaða fangelsi fyrir hótanir og brot gegn nálgunarbanni gagnvart konu sem hann átti í ástarsambandi við. Þá var hann einnig fundinn sekur um líkamsárás gagnvart kærasta konunnar.

Maðurinn hótaði konunni ítrekað eftir sambandsslit þeirra, meðal annars lífláti og skipti þá engu þótt konan hafði fengið nálgunarbann sett á manninn eða að í eitt skiptið hefði hann verið í viðurvist lögreglumanna. Hótaði hann þá að „éta andlit“ hennar og drepa hana, en það var eftir skýrslutöku vegna brota á nálgunarbanninu. Var hann í kjölfarið  í gæsluvarðhald í tæplega tvo mánuði. Auk fangelsisdóms þarf maðurinn að greiða konunni og kærasta hennar samtals rúmlega 1,3 milljónir króna í skaða- og miskabætur, auk lækniskostnaðar og málskostnaðar.

 „...tid viljid ekki mæta mer nuna“

Maðurinn og konan áttu í ástarsambandi um nokkurt skeið, en hættu svo saman. Eftir sambandsslitin hóf maðurinn að hóta konunni og hinum manninum, en hann taldi að konan hefði haldið fram hjá sér með honum.

Í febrúar á þessu ári lagði konan fram kæru á hendur hinum dæmda vegna hótana í SMS-skilaboðum. Meðal þess sem maðurinn sendi var „eg hóta ekki hlutum eg geri tá vertu ekki að hringja út um allan bæ og bulla tetta shit“, „nei ég mun meida tig...“ og „...tid viljid ekki mæta mer nuna eg a eftir ad skada ræfla eins og ykkur til frambudar“.

Tæplega mánuði síðar kom upp eldur í íbúð konunnar. Hafði hún heyrt einhvern eiga við gardínu inni á baðherbergi og þegar hún opnaði kom blossi og hávær hvellur og kviknaði í. Tókst að slökkva eldinn. Töldu konan og kærasti hennar að fyrrverandi kærastinn hefði þar átt hlut að máli.

Samþykkti nálgunarbann en braut það svo ítrekað

Daginn eftir undirritaði hinn dæmdi yfirlýsingu hjá lögreglu um að hann væri tilbúinn að skuldbinda sig til að koma ekki eða vera við heimili konunnar, veita henni eftirför eða setja sig í samband við hana í sex mánuði.

Tæplega mánuði síðar sendi hann hins vegar fjölda SMS-skilaboða þar sem hann sagði meðal annars „þú ert dauð núna ... og það er engin lögga að fara að vernda það að ég drepi þig núna“.

Hótaði lífláti í viðurvist lögreglumanna

Var í kjölfarið sett nálgunarbann á manninn. Í skýrslutöku hjá lögreglu vegna málsins sagðist hann kannast við skilaboðin og hann stæði við þau. Þá ætlaði hann beint eftir skýrslutökuna að kála kærastanum og að ekkert nálgunarbann myndi stöðva hann. Krafðist lögreglan gæsluvarðhalds yfir manninum beint í kjölfarið og var hann í varðhaldi í samtals tvo mánuði. Í skýrslutöku meðan á varðhaldinu stóð í fangelsinu á Hólmsheiði hótaði maðurinn, í viðurvist lögreglumanna, að ætla sér að éta andlit konunnar og drepa hana.

Eftir að maðurinn var látinn laus úr varðhaldi hélt hann uppteknum hætti og nálgaðist konuna eitt sinn þar sem hún sat í bíl sínum. Komst hún á lögreglustöð. Þá var brotin rúða á heimili móður konunnar og grjóti kastað í rúðu á heimili konunnar, en í báðum tilvikum var talið að maðurinn væri að verki.

Mætti á vinnustað kærastans til að berjast

Maðurinn mætti einnig á vinnustað kærastans eftir að hafa verið látinn laus úr varðhaldi. Viðurkenndi hann að hafa þar verið að „pikka fight“. Kom til handalögmála milli mannanna og fékk kærastinn meðal annars tvö högg í andlitið. Taldi dómari sýnt fram á, með hliðsjón af myndbandsupptökum, að maðurinn hefði átt upptök að átökunum.

Maðurinn viðurkenndi að hafa sent SMS-skilaboðin, en neitaði þó að um hótanir hefði verið að ræða eða líflátshótun. Dómari málsins taldi hins vegar hafið yfir skynsamlegan vafa að bæði hótun og líflátshótun hefði falist í skilaboðunum sem og hótununum við skýrslutöku. Þótti hæfileg refsing sem fyrr segir 18 mánuðir. Hann hefur áður hlotið dóma, meðal annars fyrir fíkniefnabrot og umferðalagabrot, en í vörn mannsins kom meðal annars fram að hann ætti við amfetamínvandamál að stríða.

mbl.is