Lægð gengur yfir landið í dag

Fram kemur á vef Veðurstofu Íslands að allmikil lægð gangi yfir landið í dag með tilheyrandi hvassviðri og vætu. Lægðin verði  austan við landið um og upp úr hádegi og verði þá vindátt norðanstæðari með aukinni úrkomu fyrir norðan.

Mikill vestan strengur fylgi í kjölfar lægðarinnar en sem betur fer þá fari hann að mestu framhjá landinu, suður af því, en reikna megi samt sem áður með því að það gangi í vestan hvassviðri víða sunnanlands eftir hádegi.

Búast má við austan hvassviðri og snörpum vindhviðum undir Eyjafjöllum og í Öræfum í fyrstu. Síðdegis gengur í norðvestan hvassviðri, jafnvel storm undir Eyjafjöllum seinnipartinn. Þessar aðstæður eru varasamar fyrir farartæki sem taka á sig vind.

Veðrið lægir og styttir upp í kvöld og nótt og kólnar heldur. Suðvestanátt verður á landinu á morgun með skúrum sunnan- og vestanlands. Heldur svalt en meinlaust veður verður á mánudag og þriðjudag. Síðan er útlit fyrir mildar suðlægar áttir með vætu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert