Rógsherferðin hluti af valdatafli

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri segir sameiningu lögregluembætta á Íslandi geta skilað …
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri segir sameiningu lögregluembætta á Íslandi geta skilað mikilli hagræðingu. mbl.is/​Hari

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri segir gagnrýnina á embættið að undanförnu hluta af markvissri rógsherferð. Markmiðið sé að hrekja hann úr embætti. Rangfærslum sé vísvitandi dreift sem og rógburði um hann.

„Ég er búinn að vera í þessu embætti í 22 ár og hef verið embættismaður í erfiðum hlutverkum í hátt í 40 ár en hef ekki fyrr en á þessu ári þurft að ganga í gegnum árásir af þeim toga sem við erum að horfa á innan kerfisins,“ segir Haraldur og vísar til gagnrýni úr röðum lögreglumanna sem telji sig eiga harma að hefna gegn honum.

„Í sumum tilvikum eiga í hlut starfsmenn þar sem stjórnendavald ríkislögreglustjóra hefur þurft að koma við sögu. Skiljanlega eru ekki allir starfsmenn sáttir við að forstöðumaðurinn þarf stundum að grípa inn í varðandi starfshætti og framkomu starfsmanna og einnig hvað varðar til dæmis stöðuveitingar. Það eru ekki allir sáttir við að fá ekki framgang og frama,“ segir Haraldur.

„Svívirðilegar aðferðir í valdatafli“

Spurður um þessar aðferðir við að koma honum úr embætti kveðst hann ýmsu vanur.

„Ég held að Ísland skeri sig ekkert úr hvað þetta varðar, að reynt sé að koma mönnum frá með svívirðilegum aðferðum í valdatafli, hagsmunagæslu og pólitík,“ segir Haraldur sem svarar gagnrýni á embættið í ítarlegu viðtali við Morgunblaðið í dag.

Hann segir of stóran hluta af fjármunum til lögreglunnar á Íslandi renna í „hátimbraða yfirmannabyggingu“. Með sameiningu lögregluembætta megi fækka stjórnendum og efla löggæsluna í landinu.

Þá segir hann gagnrýni sína á framgöngu lögreglumanna eiga þátt í aðförinni gegn sér sem embættismanni að undanförnu.

„Ég hef líka bent á að ekki eigi að líða spillingu innan lögreglunnar. Hluti af umræðunni sem er að brjótast fram núna er kannski einnig vegna þeirrar afstöðu minnar. Ég hef til dæmis bent á að það fari ekki saman að lögreglumenn séu meðfram starfi sínu í pólitísku vafstri. Það fer að mínu viti ekki saman,“ segir Haraldur sem telur umræðu um bílamál lögreglunnar hluta af þeirri rógsherferð að óreiða sé í fjármálum ríkislögreglustjóra.

Hann fagni fyrirhugaðri úttekt ríkisendurskoðanda á embættinu. Þá segir hann aðspurður að ef til starfsloka kemur muni það kalla á enn ítarlegri umfjöllun af hans hálfu um valdabaráttuna bak við tjöldin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert