Fylgi Sjálfstæðisflokksins óásættanlegt

Jón Gunnarsson ætlar sér að vökva grasrótina. Hann var kosinn …
Jón Gunnarsson ætlar sér að vökva grasrótina. Hann var kosinn nýr ritari Sjálfstæðisflokksins á flokksráðsfundi fyrr í dag. Ljósmynd/Haraldur Guðjónsson

Jón Gunnarsson, nýkjörinn ritari Sjálfstæðisflokksins, segir það umhugsunarvert að öll þrjú í forystu flokksins séu búsett á höfuðborgarsvæðinu. Hann veltir því einnig upp hvort sjónarmiði um sveitarstjórnarmann innan forystu flokksins hafi verið hafnað með kjöri sínu.

Það er sjónarmið sem á alveg rétt á sér og það var kannski ekki síður tekist á um þessi sjónarmið samhliða því að það var verið að velja á milli tveggja hæfra einstaklinga.“

„Þetta er auðvitað umhugsunarefni en aðalatriðið er að fólk veljist til áhrifastarfa og embættisstarfa í flokknum okkar sem fólkið treystir til að sinna því á landsvísu.“

Jón segir jafnframt að hann hafi og muni horfa til landsbyggðarinnar í sínum störfum fyrir flokkinn.

„Ég fann fyrir miklum stuðningi utan af landi og er þakklátur fyrir það svo ég tel að þetta eigi ekki að hafa nein áhrif.“

Jón var kjör­inn rit­ari á flokks­ráðsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrr í dag. Hann er þingmaður flokks­ins í Suðvest­ur­kjör­dæmi og hef­ur setið á þingi síðan 2007. Jón var sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra árið 2017.

Jón segir verkefni forystunnar skýr. „Við þurfum að efla félagsstarf okkar, það byggist á traustum og mjög góðum grunni. Það má segja að hvar sem þú kemur séu félög sjálfstæðismanna starfandi og þau eiga jafnvel sína félagsaðstöðu í öllum bæjum og sveitarfélögum landsins.“

Jón ætlar að gera sitt til að sjá Sjálfstæðisflokkinn blómstra. „Grasrótarstarf hefur verið einkenni okkar flokks og nú er ég kominn í þá stöðu að þurfa að taka á því með beinni hætti heldur en oft áður og vökva þessar rætur okkar til þess að flokksstarfið, og flokkurinn þar með, muni blómstra.“

Tækifæri í minna fylgi

Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur dalað að undanförnu. Jón segir að nauðsynlegt sé að snúa þeirri þróun við. 

„Fylgið er ekki ásættanlegt eins og það er að mælast í dag en í því felast tækifæri og við munum fyrst og fremst horfa á tækifæri og reyna að rækta þau og kalla heim til okkar aftur þá sem hafa tímabundið, vona ég, fallið frá því að styðja flokkinn. Ég hef fulla trú á því að Sjálfstæðisflokkurinn eigi mikið inni. Hann á erindi við alla þjóðfélagshópa, hvar sem er á landinu og alla aldurshópa, konur og karla.“

Jón segir að flokkurinn mætti gera meira af því að vekja athygli á því sem vel hefur farið. 

„Frá því að Sjálfstæðisflokkurinn settist í ríkisstjórn 2013 hefur upplýsingum um þau góðu verk sem unnist hafa ekki verið komið nægilega vel á framfæri. Þar tel ég að við getum gert betur. Ég finn fyrir því að fólk er farið að horfa til þessa árangurs. Það er auðvitað víða sem við þurfum að gera enn betur en það er helst þarna sem mér hefur fundist í skórinn kreppa.“

Spurður um áherslubreytingar segir Jón: „Ég held að við stöndum ekki frammi fyrir einhverjum byltingarkenndum breytingum. Það er engin ástæða til þess.“

Sjónarmiði um sveitarstjórnarmann í forystu hafnað

Áslaug Hulda Jónsdóttir, for­maður bæj­ar­ráðs Garðabæj­ar, bauð sig einnig fram en mjótt var á munum. Jón hlaut 52,1% at­kvæða meðan Áslaug fékk 45,2%. 1,5% voru auðir seðlar.

Spurður hvort hann taki niðurstöðunum sem einhverjum sérstökum skilaboðum segir hann svo ekki vera. 

„Að mínu mati tókust þarna á tveir frambærilegir einstaklingar, með ólíkan bakgrunn. Ríkjandi hefur verið sjónarmið hjá sveitarstjórnarfólki að sveitarstjórnarmaður þyrfti að vera hluti af forystu flokksins. Það er sjónarmið sem á alveg rétt á sér og það var kannski ekki síður tekist á um þessi sjónarmið samhliða því að það var verið að velja á milli tveggja hæfra einstaklinga.“

mbl.is