Sjálfstæðisflokkurinn eins og suðupottur

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fráfarandi ritari Sjálfstæðisflokksins.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fráfarandi ritari Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd/Haraldur Guðjónsson Thors

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fráfarandi ritari Sjálfstæðisflokksins, segir það heilbrigðismerki að innan Sjálfstæðisflokksins sé tekist á um mismunandi málefni þannig að upp úr sjóði. Með því eflist flokkurinn. Þetta kom fram í ræðu hennar á flokksráðs- og formannafundi Sjálfstæðisflokksins á Hótel Nordica nú fyrir stuttu. Hún gagnrýndi óstjórn í fjármálum Reykjavíkurborgar og sagði að flokksmenn mættu ekki láta öðrum eftir að skilgreina flokkinn.

Áslaug byrjaði ræðuna á að þakka það traust sem henni hefði verið sýnt fyrir fjórum árum þegar hún var kjörin ritari, þá 25 ára gömul. Sagði hún Sjálfstæðisflokkinn dæmi um flokk þar sem ungu fólki væri treyst og að slíkt væri ekki bara innihaldslaust tal á hátíðastundum.

Talsvert hefur verið tekist á innan Sjálfstæðisflokksins undanfarið vegna þriðja orkupakkans og án þess að minnast á hann beinum hætti sagði Áslaug heilbrigt að takast á. „Ágætur vinur minn hefur líkt Sjálfstæðisflokknum við suðupott hugmynda. Þar kraumi allt undir og stundum sjóði upp úr. Þannig eigi þetta að vera og forysta Sjálfstæðisflokksins eigi að fagna því þegar tekist er á um ólíkar skoðanir og aðferðir. Þannig eflist flokkurinn og flokksstarfið verður líflegra og skemmtilegra,“ sagði Áslaug.

„Þegar fólk hættir að hafa skoðun á flokknum hættir hann að hafa áhrif“

Þá sagði hún að undanfarið hefðu margir viljað skilgreina flokkinn, hvort sem það væri með að segja hann of íhaldssaman eða of frjálslyndan. Þá væri einnig nefnt að forystan ýtti undir einangrunarhyggju meðan aðrir sögðu hana undirlægju alþjóðakerfisins. Einnig væru raddir sem segðu of fáar konur í forystu flokksins, en aðrir sem segðu of margar þar. Sagði Áslaug að flokksmenn ættu ekki að láta öðrum eftir að skilgreina Sjálfstæðisflokkinn. Hins vegar væri það jákvætt þegar fólk hefði svona mikla skoðun á honum. „Þegar fólk hættir að hafa skoðun á flokknum hættir hann að hafa áhrif,“ sagði hún.

Segir óstjórn ríkja í rekstri Reykjavíkurborgar

Áslaug kom inn á efnahagsmál og stefnu Sjálfstæðisflokksins þar nú þegar fjárlög liggja fyrir þinginu. Sagði hún flokkinn með skýra sýn á þeim vettvangi. „Við þurfum ekki annað en að horfa til þeirrar efnahagsstefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir í ríkisstjórn síðastliðin sex ár í samanburði við þá óstjórn sem ríkir í rekstri Reykjavíkurborg, þar sem fjórir vinstriflokkar sitja við völd,“ sagði hún og bætti við að hægt væri að fylgjast með umræðum um fjárlögin fyrir frekari sannanir. Þar talaði Sjálfstæðisflokkurinn fyrir skattalækkunum, en á meðan „boðar Samfylkingin og vinir hennar hækkun skatta sem einu lausnina við öllum helstu vandamálum, raunverulegum og ímyndunum“.

Hröð tækniþróun sem þarf að nýta

Áslaug fór í lok ræðu sinnar yfir þær miklu breytingar sem hafa átt sér stað síðustu 10 ár, eða frá því að Bjarni Benediktsson var kjörinn formaður flokksins. Vísaði hún meðal annars til mikilla tækniframfara og uppgangs samfélagsmiðla. „Tímarnir breytast afar hratt og verki okkar er hvergi nærri lokið. Ef við ætlum okkur áfram að vera burðarás í íslenskum stjórnmálum verðum við að eiga samskipti við alla hópa,“ sagði hún. Áslaug sagði fólk ekki eiga að forðast nýja tækni heldur nýta hana. „Hröð tækniþróun felur í sér aukin tækifæri og nýjar samskiptaleiðir. Sú þróun gengisfellir ekki umræðuna. Hugmyndir okkar og gildi rýrna ekki við nýja tækni, heldur þvert á móti eigum við meiri möguleika en áður á að láta í okkur heyra, koma skoðunum okkar á framfæri, vera okkar eigin fjölmiðill og tryggja að allir fái tækifæri til að kynnast sjálfstæðisstefnunni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert