Stóðu vaktina við Höfða

Ágúst Svansson og Guðbrandur Sigurðsson.
Ágúst Svansson og Guðbrandur Sigurðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Erlendra fyrirmenna sem heimsækja Ísland í opinberum heimsóknum eða öðrum erindum er vandlega gætt. Eggert ljósmyndari var á Bessastöðum þegar Indlandsforseti kom þangað í fyrradag og tók þá mynd af þeim Ágústi Svanssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni í aðgerða- og skipulagsdeild LRH, og Guðbrandi Sigurðssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni í umferðardeild LRH. Þeir hafa báðir langa reynslu af að gæta háttsettra erlendra gesta sem heimsækja Ísland.

Þrengsli í anddyri Höfða

Guðbrandur Sigurðsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á að baki 39 ár í lögreglunni en hann hóf þar störf tvítugur árið 1980.

„Ég var við öryggisgæslu sem sérsveitarmaður í anddyri Höfða á leiðtogafundinum 1986,“ sagði Guðbrandur. „Anddyrið er svo þröngt að ég þurfti að færa mig alveg upp að veggnum svo þeir Reagan Bandaríkjaforseti og Gorbatsjov, leiðtogi Sovétríkjanna, kæmust fram hjá!“

Gorbatsjov, leiðtogi Sovétríkjanna, og Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna, í Höfða.
Gorbatsjov, leiðtogi Sovétríkjanna, og Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna, í Höfða. mbl.is/RAX

Áður en Guðbrandur varð sérsveitarmaður var hann bifhjólalögreglumaður og fylgdi bílalestum fyrirmanna. Hann hefur tekið þátt í öryggisgæslu opinberra gesta sem bifhjólalögregla, sérsveitarmaður eða fylgdarstjórnandi.

„Þetta eru krefjandi verkefni. Við þurfum að vinna eftir stífu skipulagi frá stjórnvöldum, stilla upp bílum, hafa allt klárt og virða komu- og brottfarartíma. Gestur í opinberri heimsókn er á ábyrgð íslenska ríkisins og það má ekkert koma upp á sem varpar skugga á heimsóknina,“ sagði Guðbrandur. Algengt er að erlendu gestirnir séu með sína eigin öryggisverði. Samhæfing við þá fer í gegnum embætti Ríkislögreglustjórans. Guðbrandur benti á að erlendir öryggisverðir færu ekki með lögregluvald og væru ekki með heimild til afskipta af íslenskum borgurum. Allar þeirra áhyggjur þurfa að fara í gegnum íslensku lögregluna.

„Þetta hefur gengið áfallalaust og sárasjaldan orðið einhverjar uppákomur. Að öllu jöfnu eru Íslendingar kurteisir og skilningsríkir á skyldur ríkisins við opinberar heimsóknir,“ sagði Guðbrandur.

Fólk er almennt tillitssamt

„Ég byrjaði í lögreglunni 1982 og kom að öryggisgæslu á leiðtogafundi þeirra Gorbatsjovs og Reagans í Höfða 1986,“ sagði Ágúst Svansson aðstoðaryfirlögregluþjónn. „Ég var í gamla vegaeftirlitinu. Þá vorum við mikið í að fylgja fyrirmennum. Svo fór ég í almennu lögregluna. Nú er ég í aðgerða- og skipulagsdeild og við sjáum um ákveðna skipulagingu í kringum opinberar heimsóknir. Umferðardeildin er svo með framkvæmdina og ég er oft með í henni.“

Guðni Th. Jóhannesson forseti og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, í …
Guðni Th. Jóhannesson forseti og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, í Höfða. mbl.is/​Hari

Ágúst segir að heimsóknirnar kalli á mikið samstarf Ríkislögreglustjóra, LRH, sendiráða, ráðuneyta, forsetaskrifstofu og fleiri. Mikilvægt sé að allar tímasetningar standist. Eitt af hlutverkum lögreglunnar er að tryggja að menn komist greiðlega á milli staða. Mótorhjólin fara á milli gatnamóta og tryggja að bílalestin komist leiðar sinnar snurðulaust. Einnig þarf að tryggja öryggi gestanna á öllum tímum.

„Við berum virðingu fyrir þessum verkefnum eins og öðrum sem við fáum. Fólk er mjög tillitssamt og sýnir okkur og erlendu gestunum almennt mikla kurteisi. Það verður aldrei ofþakkað,“ sagði Ágúst.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert