„Þið leggið rækt við ræturnar“

„Eitt af því sem heillaði mig þegar ég kynntist Íslendingum …
„Eitt af því sem heillaði mig þegar ég kynntist Íslendingum betur í vinnu minni hérlendis er hvað þið eruð gestrisin, elskuleg og stolt sem þjóð. Þið hampið hetjum ykkar með stolti, sem veitir mér sem Dana innblástur,“ segir Sofie Gråbøl. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég þáði verkefnið um hæl og fyrir því eru nokkrar ástæður,“ segir danska leikkonan Sofie Gråbøl þegar hún er spurð um aðkomu sína að kynningu á Íslendinga- og fornaldasögunum. Í tengslum við 100 ára fullveldisafmæli Íslands hefur Gråbøl tekið þátt í dagskrám víðs vegar um Danmörku, m.a. í Kaupmannahöfn, Óðinsvéum, Álaborg og Árósum með Annette Lassen, ritstjóra átta binda útgáfu Íslendingasagnanna sem út komu 2014 í danskri, sænskri og norskri þýðingu. Þar hefur Lassen flutt fyrirlestra um Íslendingasögurnar og Gråbøl lesið upp.

Samstarfið heldur áfram á næstunni þar sem Gråbøl mun lesa upp úr Njáls sögu í heimalandi sínu. Blaðamaður Morgunblaðsins hitti Gråbøl á föstudaginn var, en þann dag bauð mennta- og menningarmálaráðuneytið til ráðstefnu í tilefni af því að Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni 2019. Frummælendur og þátttakendur í pallborðsumræðum frá Íslandi, Danmörku, Svíþjóð og Noregi veltu þar upp nýjum og hugmyndaríkum leiðum til þess að koma Íslendingasögunum á framfæri við nýjar kynslóðir og halda þeim á lofti sem hluta af sameiginlegum norrænum menningararfi. Undir lok dags lásu Gråbøl og Halldóra Geirharðsdóttir upp úr völdum Íslendingasögum og -þáttum. 

Spennandi miðlunarform

„Mér finnst einstaklega gaman að lesa upp og hef á síðustu árum tekið æ fleiri slík verkefni að mér. Mér finnst ég ná að gefa áheyrendum jafnmikið af mér þó ég sé ekki að takast á við tiltekið leikhlutverk. Í stað þess að túlka textann er ég að miðla honum til áheyrenda. Þegar ég tekst á við hlutverk á leiksviði eða hvíta tjaldinu þarf ég að ýta sjálfri mér til hliðar þar sem markmiðið er að áhorfendur trúi því að ég sé persónan sem ég leik. Upplesturinn krefst þessa ekki. Þar get ég komið fram sem ég sjálf og þarf aðeins að gæta þess að skyggja ekki á textann, enda snýst upplesturinn ekki um mína túlkun. Af þeim sökum finnst mér þetta spennandi miðlunarform – enda snýst þetta í grunninn um að segja sögu,“ segir Gråbøl og tekur fram að þegar henni bauðst upplestrarverkefnið sá hún það sem kærkomið tækifæri til að lesa loks Íslendinga- og fornaldarsögurnar.

„Þótt skömm sé frá að segja hafði ég aldrei lesið neina Íslendingasagnanna þegar Annette hringdi í mig og bauð mér að lesa upp úr þeim. Ég bý við þann lúxus í mínu fagi að fá tækifæri til að kynna mér nýja hluti. Sem dæmi tók ég fyrir nokkrum árum að mér að lesa inn á hljóðbók stóran hluta Nýja testamentisins, sem gaf mér einstakt tækifæri til að sökkva mér ofan í þennan ríkulega menningararf á faglegum forsendum,“ segir Gråbøl og bætir við að þegar komi að vinnunni með tungumálið sé hún í raun algjör nörd. „Ég er alltaf jafn hugfangin af öllum þeim blæbrigðum sem tungumálið býr yfir. Það er hægt að nálgast upplestur á svo margvíslegan hátt og miðla textum með ólíkum hætti. Í því samhengi eru Íslendingasögurnar svo áhugaverðar því mér finnst ég skynja svo sterklega í textanum að þær byggjast á munnlegri frásagnarhefð. Það birtist til dæmis í því hversu oft og fimlega stokkið er fram og til baka í tíðum, jafnvel innan sömu setningar. Á sama tíma er textinn svo hreinskiptinn og uppfullur af húmor. Svo spillir ekki fyrir hversu kröftugar sögurnar eru, framvindan dramatísk og persónur áhugaverðar,“ segir Gråbøl og nefnir í því samhengi meykónga fornsagnanna.

Óttaleysi og uppreisn

„Mér finnst svo áhugavert að heimsmynd þess tíma sem sögurnar greina frá skuli hafa getað rúmað þessar sjálfstæðu konur sem neita að undirgangast hefðbundin kynhlutverk samfélagsins og taka sér valdastöðu sem alla jafna tilheyrði körlum. Það vekur þó óneitanlega kátínu að þessar sterku konur, sem stjórna óhikað konungsríkinu og leiða herdeildir sínar til sigurs í bardögum, skuli í sögulok samt allar gifta sig og snúa sér að hannyrðum í stað stríðsátaka,“ segir Gråbøl og tekur fram að óttaleysi meykonunganna og uppreisn þeirra gegn hefðbundnum kynhlutverkum geti veitt nútímalesendum mikilvægan innblástur.

Spurð hvort hún eigi sér einhverja uppáhaldsfornsögu tekur Gråbøl fram að þó hún eigi öll bindin átta sem gefin voru út 2014 og rúma 29 fornsögur þá hafi hún enn ekki lesið þær allar þó hún stefni auðvitað að því. „Ég er ótrúlega heilluð af sögu Helgu sem sögð er í Bárðar sögu Snæfellsáss. Hún er gott dæmi um enn eina sterku konuna sem fornsögurnar geyma. Hin undurfagra Helga er aðeins unglingsstúlka að leik með frændum sínum þegar ísjaki sem hún er stödd á losnar og rekur til Grænlands þar sem hún þiggur veturvist í Brattahlíð hjá Eiríki rauða. Á Grænlandi kynnist hún Miðfjarðar-Skeggja, sem þá er giftur maður, og takast með þeim ástir. Hún fylgir honum fyrst til Noregs og síðan Íslands þar sem faðir hennar sækir hana. Lýsingarnar á sorg og depurð Helgu þegar hún glatar Skeggja eru magnaðar. Ástleysið rænir hana lífsgleðinni með þeim afleiðingum að hún getur ekki lengur búið innan um annað fólk og leggst í sjálfskipaða útlegð. Við fyrstu sýn er sagan húmorísk hetjufrásögn, en samtímis nær hún að fanga hjarta lesenda þegar miðlað er sterkum sammannlegum tilfinningum. Mér finnst í raun magnað hversu víðfeðmar þessar sögur eru, fyndnar, litríkar, djúpvitrar og sálfræðilega trúverðugar,“ segir Gråbøl og tekur fram að sökum þessa beri hún mikla virðingu fyrir sögunum.

Aðspurð segir hún fólk á öllum aldri mæta á fyrirlestra- og upplestrarkvöld þeirra Annette Lassen í Danmörku þar sem Íslendingasögurnar eru í forgrunni. „Kvikmyndir og sjónvarpsþættir síðustu ára, sem eru undir sterkum áhrifum frá fornsögunum, virðast vera að vekja áhuga, ekki síst ungs fólks á þessum flotta menningararfi,“ segir Gråbøl og nefnir í því samhengi Krúnuleikana og Hringadróttinssögu. „Sú yfirnáttúrulega frásagnaraðferð sem notuð er í Krúnuleikunum hefði þótt óhugsandi og jafnvel hallærisleg í sjónvarpi fyrir tuttugu árum. Kosturinn við þessa aðferð er að með því að stækka frásögnina má jafnvel komast nær kjarnanum og manneskjunni,“ segir Gråbøl og fagnar breytingunni. „Um langt árabil áttu allar kvikmyndir og sjónvarpsþáttaraðir að vera raunsæjar og fjalla um hversdagsleg málefni. Þetta hefur hins vegar breyst og það er gaman að sjá að frásagnaraðferð fornsagnanna er enn lifandi.“

Hafði þörf fyrir nýtt umhverfi

Í samtali við Sofie Gråbøl leynir það sér ekki hvað hún er hrifin af Íslandi, bæði landi og þjóð. Hún rifjar upp að þegar hún kom hingað fyrst árið 2014 til að leika í sjónvarpsþáttaröðinni Fortitude hafi hún verið nýbúin að ljúka erfiðri meðferð við brjóstakrabbameini. „Ég hafði því mikla þörf fyrir að skipta um umhverfi. Þegar líf manns tekur stakkaskiptum vegna til dæmis erfiðra veikinda neyðist maður til að horfa á stóru myndina í stað þess að gleyma sér í amstri hversdagsleikans. Þegar ég veiktist hafði ég nýlokið við að leika í Forbrydelsen í sjö ár, sem var mjög krefjandi verkefni. Ég hafði líkt og hlaupið í spretti um lengri tíma og féll skyndilega niður í hyldýpi svartnættis,“ segir Gråbøl og bætir við: „Ég fór um daginn að hugsa um veikindin út frá Tanngrisni og Tanngnjósti, höfrum Þórs, sem hann gat slátrað að kvöldi og reist upp frá dauðum að nýju næsta dag svo lengi sem húð þeirra og bein voru óskemmd. Þegar Þjálfi brýtur einn legginn og sýgur merginn varð annar hafurinn haltur upp frá því.

Sofie Gråbøl er sennilega þekktust fyrir túlkun sína á Söruh …
Sofie Gråbøl er sennilega þekktust fyrir túlkun sína á Söruh Lund í dönsku sjónvarpsþáttaröðinni Forbrydelsen.

Meðan ég var yngri fannst mér ég geta notað og jafnvel misnotað sjálfa mig í vinnunni á hverjum degi, því ég reis ávallt heil upp næsta dag. Þegar ég veiktist af brjóstakrabbameininu upplifði ég að eitthvað hefði brotnað. Þó veikindin sjálf séu nú að baki þá hvarf hluti mergsins og kemur aldrei aftur. Í þeim skilningi skiptist líf mitt í fyrir og eftir veikindin,“ segir Gråbøl og rifjar upp að fjöldi göngutúra í íslenskri náttúru hafi gert sér ótrúlega gott.

Dáist að Íslendingum sem þjóð

„Það er skemmtilega táknrænt að Forbrydelsen lauk með því að Sarah Lund flaug til Íslands inn í svartnættið og fyrsta verkefnið eftir veikindin, þar sem mér fannst ég dvelja heilt ár í myrkri, færði mig til Íslands þar sem ég gat byrjað að fóta mig að nýju. Á þeim tíma var ég bæði líkamlega og andlega slegin og fannst það mjög erfið tilhugsun að stilla mér upp fyrir framan kvikmyndavélina til að leika. Mér fannst mikill léttir að vera ekki í aðalhlutverki í seríunni og þurfa þannig ekki að bera hana uppi, heldur að fá einfaldlega að vera hluti af heildinni. Það þýddi líka að ég átti mikinn tíma aflögu á milli upptakna sem ég notaði til að fara í langar gönguferðir í íslenskri náttúru sem veitti mér endurnýjaða orku og jarðsamband sem var mér gríðarlega mikilvægt. Náttúran hér á landi færði mér þá ró sem ég þurfti til að jafna mig, en þá ró hafði ég ekki getað fundið heima í Danmörku,“ segir Gråbøl og tekur fram að hana hafi langað til að deila jákvæðri upplifun sinni af náttúru Íslands með 15 ára dóttur sinni, Guðrúnu, sem var með í för núna og því hafi þriggja daga heimsóknin verið nýtt vel í ferðalög út á land.

Sofie Gråbøl ásamt Stanley Tucci (t.v.) og Richard Dormer (t.h.) …
Sofie Gråbøl ásamt Stanley Tucci (t.v.) og Richard Dormer (t.h.) mótleikurum sínum í sjónvarpsþáttaröðinni Fortitude sem var að hluta tekin upp á Íslandi.

Blaðamaður getur ekki annað en forvitnast hvernig Gråbøl valdi dóttur sinni nafn, enda Guðrún ekki algengt nafn í Danmörku. „Þegar ég var ólétt og vissi að ég ætti von á stelpu fórum við strax að velta ýmsum nöfnum fyrir okkur,“ segir Gråbøl og nefnir í því samhengi nafnið Geirþrúði. „Þá hitti ég vinkonu mína, sem einnig hefur verið samstarfskona mín síðasta aldarfjórðunginn, sem sagði mér að hún væri nýbúin að kaupa sér hús sem stæði við Guðrúnarveg. Um leið vissi ég hvað dóttir mín ætti að heita,“ segir Gråbøl og bætir við:

„Eitt af því sem heillaði mig þegar ég kynntist Íslendingum betur í vinnu minni hérlendis er hvað þið eruð gestrisin, elskuleg og stolt sem þjóð. Þið hampið hetjum ykkar með stolti, sem veitir mér sem Dana innblástur. Danmörk er flatt land og kannski af þeim sökum heillumst við Danir af flötum strúktúr í öllum skilningi. Þannig má heldur enginn skara framúr. Ég dáist að ykkur sem þjóð og er innblásin af stórhug ykkar og óttaleysi við að takast á við nýjungar á sama tíma og þið leggið rækt við ræturnar,“ segir Gråbøl meðal annars í viðtali sem birtist fyrst í Morgunblaðinu fimmtudaginn 12. september. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert