Ummæli formannsins hluti af rógsherferðinni

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri.
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri. mbl.is/​Hari

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri segir að viðbrögð Arinbjarnar Snorrasonar, formanns Lögreglufélags Reykjavíkur og fleiri við viðtali sem Morgunblaðið tók við ríkislögreglustjóra og birt var nú um helgina séu fyrirséð og og hluti af þeirri rógsherferð sem um sé fjallað í viðtalinu við hann. mbl.is leitaði til Haraldar vegna ummæla Arinbjarnar í frétt mbl.is fyrr í dag.

Segir Haraldur að þeirri aðferð sé beitt að fjalla ekki málefnalega um þau viðfangsefni sem hann taki á í viðtalinu heldur sé hjólað áfram í persónulegu níði um manninn. Slíkt sé leið rökþrota manna sem komnir séu upp að vegg. Að öðru leyti telur ríkislögreglustjóri að ummæli Arinbjarnar dæmi sig sjálf og séu lýsandi um það vandamál sem um er fjallað í viðtalinu.

Meira hafi ríkislögreglustjóri ekki að segja um ummæli Arinbjarnar í dag og undanfarna daga, þau séu öll í þá veru að vega að æru ríkislögreglustjóra og persónu hans.

mbl.is