Má búast við stormi á Snæfellsnesi, í Mýrdal og Öræfum

Búast má við stormi á Snæfellsnesi í kvöld og í …
Búast má við stormi á Snæfellsnesi í kvöld og í Mýrdal og Öræfum í fyrramálið. mbl.is/RAX

Búast má við allhvassri vestanátt, jafnvel stormi, með snörpum vindhviðum á Snæfellsnesi í kvöld og nótt og í Mýrdal og Öræfum í fyrramálið. Þá eru líkur á éljum og hálku á vegum á Norður- og Vesturlandi í nótt. Þetta kemur fram í athugasemdum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Spáð er vestan og suðvestan átt, 13-20 m/s og skúrum, en mun hægara veðri og úrkomuminna á Norðausturlandi í kvöld. Með nóttinni mun draga smám saman úr vindi og færast í norðvestan 3-10 m/s með smá skúrum síðdegis á morgun, en bjartviðri syðra. Hiti verður frá 5 til 10°C að deginum, en allvíða má gera ráð fyrir næturfrosti inn til landsins.

Á höfuðborgarsvæðinu verða 10-18 m/s og skúrir fram á nótt, en 8-13 m/s og smá skúrir í fyrramálið. Gert er ráð fyrir að annað kvöld lægi. Hiti verður frá 5 til 9°C, en 2 til 5°C í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert