Fjárlagafrumvarpið mæti ekki loforðum

Þrír þingmenn Samfylkingarinnar. Frá vinstri: Ágúst Ólafur Ágústsson, Logi Einarsson, …
Þrír þingmenn Samfylkingarinnar. Frá vinstri: Ágúst Ólafur Ágústsson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir. Haraldur Jónasson/Hari

„Forsendur fjárlagafrumvarpsins eru í litlu samræmi við raunveruleikann,“ segir í tilkynningu sem Samfylkingin sendi frá sér vegna fjárlagafrumsvarps ríkisstjórnarinnar. 

Þar er frumvarpið gagnrýnt harðlega en Samfylkingin segir frumvarpið þó ekki koma neinum í opna skjöldu.

„1.000 milljarða kr. fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar nær ekki að mæta þeim loforðum sem gefin voru fjölskyldufólki, öryrkjum og námsmönnum. Fátt kem­u á óvart í frumvarpinu enda bygg­ist frum­varpið á fjár­mála­áætl­un­inni sem var samþykkt í vor. Við gagnrýndum áætlunina harðlega og sett­um fram breyt­ingar­til­lög­ur.“

Hvorki horft til velferðar né framtíðar

Samfylkingin vill meina að með frumvarpinu sé hvorki verið að verja velferð þjóðarinnar né fjárfesta í framtíð hennar. 

„Í fjárlagafrumvarpinu er ekki útlistað hvernig tekið verður á fyrirsjáanlega versnandi stöðu og engin skref sýnd í frumvarpinu sem þyrfti að taka til  að undirbúa harkalegri niðursveiflu.“

Samfylkingin segir að Landspítalinn sé „enn og aftur fjársveltur“ í frumvarpinu og að spítalinn stefni í fjögurra milljarða króna halla á þessu ári. Sérstök aðhaldskrafa sé lögð á sjúkrahús, öldrunarstofnanir og skóla í frumvarpinu. 

Auknir fjármunir til SÁÁ sem fjárlaganefnd bætti við í fyrra virðast hafa fallið út í ár, að sögn Samfylkingarinnar. „Í þessu samhengi er vert að undirstrika að 581 einstaklingur undir 30 ára innritaðist í fyrstu meðferð á Vogi í fyrra, þar af 70 undir tvítugu.“

Metnaðarleysi í loftslagsmálum

Samfylkingin gagnrýnir sérstaklega að einungis 2,5% fjárlaga fari í umhverfismál þegar neyðarástand ríki í loftslagsmálum. 

„Það er alls ekki nóg og lýsir metnaðarleysi stjórnvalda í þessu stærsta sameiginlega verkefni mannkyns,“ segir í tilkynningunni. 

Skerðing á fjármunum til menntamála er áhyggjuefni að mati Samfylkingarinnar. „Fjármunir eru beinlínis lækkaðir til framhaldsskóla milli ára í fjárlagafrumvarpinu. Erfitt er að koma auga á margboðaða sókn í menntamálum.“

„Fjármunir til háskólastigsins eru lækkaðir milli ára og er það réttlætt með því að LÍN hafi fengið ofgreiðslu. Það má spyrja af hverju ekki sé í lagi að leyfa málaflokknum að halda þeim fjármunum sem höfðu verið ákveðnir í hann því þörfin er svo sannarlega til staðar. Ljóst er að ríkisstjórnin mun ekki ná meðaltali framlaga OECD-ríkja til háskóla og á enn langt í land með að ná meðaltali hinna norrænu ríkjanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert