Ófært í Landmannalaugar

Snjórinn er ekki þykkur, en getur verið varasamur á vegum …
Snjórinn er ekki þykkur, en getur verið varasamur á vegum sem þegar eru erfiðir yfirferðar. Myndin er tekin í Landmannahelli í morgun. Ljósmynd/Aron Frank Leopoldsson

Vetur er genginn í garð í Landmannalaugum og jörð snævi þakin. Síðustu daga hefur gengið á með snjó og rigningu til skiptis og þykir svæðið ekki fært nema vel útbúnum bílum, helst á 35 tomma dekkjum eða stærri.

„Veðrið er búið að sýna allar hliðar í dag. Snjór, slydda og sólskin,“ segir Nína Aradóttir, yfirlandvörður að Fjallabaki. Þónokkrir jepplingar hafa fest sig í snjónum í dag og hafa flestar leiðir verið lýstar ófærar, þar með taldir vegir 208, Sigölduleið, F-208, að Fjallabaki nyrðra, og F-225, Landmannaleið.

Lokað verður þó tímabundið og verður staðan tekin aftur í fyrramálið, segir Nína og bendir ferðalöngum á að fylgjast með færð vega á heimasíðu Vegagerðarinnar. Skálar að Fjallabaki inn að Landmannalaugum verða opnir fram á þriðjudag, og von er á hóp ferðamanna sem mun gista í skálanum á Álftavatni næstu daga. Eftir það verður skálum á Laugavegi lokað fram á næsta sumar, en skálar í Landmannalaugum verða sennilega opnir fram á haust. Á næstu vikum er síðan viðbúið að vegir verði lýstir ófærir fram á sumar. Í fyrra var það gert í október, en Nína segir það ráðast af veðurfari næstu vikur.

Ekki þurft að kalla út björgunarsveit

Þar með er þó ekki sagt að enginn geti keyrt um svæðið, en aðeins þeir sem eru á vel búnum bílum geta farið um. Kalla þurfti út dráttarbíl frá Hellu til að losa bíla sem höfðu fest sig í sköflum í dag, en ekki hefur þó þurft að leita á náðir björgunarsveita.

„Þetta sleppur núna,“ segir Kári Rafn Þorbergsson, björgunarsveitarmaður hjá Flugbjörgunarsveitinni á Hellu, en hún er jafnan kölluð út til aðstoðar í Landmannalaugum. Hann veit þó til þess að bílar á sumardekkjum hafi verið á ferðinni um svæðið, en býst við að Vegagerðin lýsi vegina ófæra fyrir slíka bíla á næstu vikum.

Kári segir rigningu og snjókomu hafa skipst á síðustu daga. „Það hitnar aðeins yfir daginn og blotnar, en snjórinn nær þó ekki að hverfa. Síðan kemur hann aftur á nóttunni.

Víðar snjóar á hálendinu, en í samtali við mbl.is sagði jeppamaður sem hafði verið á ferð norðan Skjaldbreiðar að þar hefði snjó kyngt niður í gærkvöldi. Í nótt hefði reyndar rofað til, en í morgun hefði aftur byrjað að snjóa og hefði það verið alvöru þekjusnjór. Þar sem mestur snjór var náði hann jafnvel upp í felgur á 38 tomma dekkjum og víða sást ekki í veginn.

Myndin er tekin í gær, rétt norðan Skjaldbreiðar.
Myndin er tekin í gær, rétt norðan Skjaldbreiðar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert