Skera upp herör gegn samviskubiti foreldra

María Ólafsdóttir og Emma Eyjólfsdóttir halda úti skemmtilegum hlaðvarpsþáttum, Andvarpið …
María Ólafsdóttir og Emma Eyjólfsdóttir halda úti skemmtilegum hlaðvarpsþáttum, Andvarpið - hlaðvarp foreldra. mbl.is/Hari

Þær unnu á sama vinnustað í þrjú ár án þess í raun að hittast því þær skiptust á að eiga börn og vera í fæðingarorlofi. Það var loks fyrir um þremur árum sem þær hittust í sundlaug, hvar annars staðar. „Við hittumst fyrst allsberar,“ segir Emma Björg Eyjólfsdóttir og hlær og María Ólafsdóttir bætir við: „Okkur finnst það skemmtilegur punktur. Við vorum líka báðar hálfblindar því við vorum ekki með gleraugun.“

Emma og María halda úti hlaðvarpsþáttunum, Andvarpið - hlaðvarp foreldra. Þar fara þær yfir hina ýmsu þætti foreldrahlutverksins og ræða meðal annars um ófrjósemi, meðgöngu, fæðingu, uppeldi o.fl. Húmorinn er þó aldrei langt undan enda segja þær mikilvægt að hafa hann í farteskinu samhliða þeirri ábyrgð sem fylgir því að eignast og ala upp barn. Þær stöllur vita sitt hvað um slíkt enda eiga þær báðar þrjú börn og miðla af þeirri reynslu sinni í þáttunum. María á þrjú börn 4 ára og yngri og Emma er með einn ungling og tvö sem eru fjögurra og fimm ára.

Það er gaman að fylgjast með börnum vaxa og þroskast.
Það er gaman að fylgjast með börnum vaxa og þroskast. mbl.is/RAX

Stöllurnar voru með börn á sama leikskóla og fóru fljótlega að bera saman bækur sínar eða andvarpa hvor á aðra. „Við hittumst oft vindblásnar í leikskólahliðinu. Mér fannst Emma alltaf vera með þetta, með varalit og allt. En á sama tíma sagði hún oft: „Guð minn góður! Ég er með allt niðrum mig í dag“,“ rifjar María upp og þær skella báðar upp úr. „Já og ég hitti Mæju einu sinni fyrir utan leikskólann þegar hún hafði slysast til að læsa barnið inni í bíl,“ segir Emma. „Guð, já. Þetta var á sjálfan bolludaginn. Ég neyddist til að fara út í búð og kaupa tilbúnar bollur eftir þetta hræðilega atvik. Bolludagurinn 2018 var ónýtur, svartur dagur í lífi fjölskyldunnar sem við tölum ekki um,“ segir María og glottir.

„Við fundum í hvor annarri hvað það er gott að geta talað opinskátt um það þegar maður er ekki með allt á hreinu. Það er miklu oftar þannig en maður gerir sér grein fyrir. En svo skrollar maður í gegnum samfélagsmiðla og þar er allt straujað, fallegt og flott og manni líður sjálfum eins og aumingja í þessum samanburði. Ég kem að minnsta kosti alltaf illa út,“ segir Emma og hlær.

Úr varð að þetta líflega spjall þeirra um foreldrahlutverkið sem þær eiga báðar auðvelt með að ræða um á hreinskiptinn hátt tók á sig mynd Andvarpsins. „Við fundum báðar hvað það var nærandi að hittast og spjalla,“ segir María og tekur fram að þær séu langt frá því að vera alltaf búnar að ganga frá eftir matinn eða brjóta saman þvottinn þegar þær taka upp þátt. „Það er einmitt svo gott að geta deilt hversdeginum í allri sinni dýrð. Stundum er hann frábær og maður er með allt á hreinu en stundum ekki,“ segir Emma.

Margir foreldrar geta eflaust fundið eitthvað sem þeir tengja við …
Margir foreldrar geta eflaust fundið eitthvað sem þeir tengja við í hlaðvarpsþættinum Andvarp. mbl.is/Hari

 Muna að 30% er nóg til að standa sig

Í fyrsta þættinum sem heitir Niður með samviskubitið er bent á að 30% eru í raun það sem þarf daglega til að standa sig sem foreldri. Lýsing á efni þáttarins sýnir glöggt hvaða stefnu þær marka sér: „Í þessum þætti skerum við upp herör gegn samviskubiti sem virðist vera heilbrigðisvandamál meðal foreldra. Niður með sammarann og upp með djammarann! Skellið ykkur nú í góðan göngutúr með hlaðvarp í eyrunum eða lokið ykkur bara inni í geymslu og njótið í friði.“

Þessi umræddu 30% sem foreldrar þurfa að gera til að standa sig í foreldrahlutverkinu eru fengin frá menntuðum fjölskylduráðgjafa sem María og eiginmaður hennar leituðu til. „Það er mikið álag fyrir eins og hálfs árs barn að eignast lítið systkini svo við vildum fá smá ráðleggingar. Þegar hún spurði okkur hversu vel við teldum okkur þurfa að standa okkur í foreldrahlutverkinu samanlagt yfir daginn svöruðum við bæði um 80% og var þá tjáð að það væri mikil og nánast óraunhæf pressa þar sem þessi ágætu 30% væru alla jafna nægileg. Það léttir á í amstri dagsins að hafa þetta í huga og dregur vonandi úr hinu endalausa samviskubiti,” segir María.

 Samfélagsmiðlar ýta undir óraunhæfar kröfur

Í þessu samhengi bendir Emma á að kröfurnar sem foreldrar bæði upplifa og gera til sjálfra sín séu óraunhæfar og spila samfélagsmiðlar þar m.a. stórt hlutverk. „Það er alltaf þessi krafa um að maður sé með allt á hreinu þegar aðstæðurnar bjóða ekki upp á það. Maður er útivinnandi, með flókið heimilislíf og á sama tíma er gerð krafa um að maður sinni sjálfum sér, sé frábær maki, eldi lífrænt, helst allt í plastlausum umbúðum og maður fær smá kvíðakast yfir því að þurfa að vera 120% á öllum sviðum,” segir Emma.

Eitt af því sem þær hafa báðar reynt að tileinka sér til að minnka pressuna er að passa að yfirbóka sig ekki, hvorki sig né börnin. „Maður er að bóka sig langt fram í tímann á alls kyns viðburði,“ segir Emma og dæsir yfir sjálfri sér. María tekur í sama streng: „Maður þarf frekar að vanda valið í hvað maður eyðir tímanum og nota orkuna í það sem gefur manni mest. Minnka hringinn og minnka kröfurnar. Þetta er ekki kapphlaup um að eiga sem flesta vini eða mæta á sem flesta viðburði. Mjög oft gengur það ekki einfaldlega upp,“ segir María.

Þær hafa báðar reynslu af því að sjá fram á að komast ekki í bókaðan tíma t.d. hjá tannlækni eða sjúkraþjálfara þegar allt hefur farið á „hvolf“ í heimilislífinu eða eitthvað óvænt komið upp á. „Oftar en ekki ganga plönin ekki upp og þá verður maður að sleppa því að smella svipunni á bakið á sér og horfast í augu við staðreyndir,“ segir María.

Á auðveldara með að týna ekki sjálfri sér

„Mér finnst auðveldara, eftir að ég fór að segja upphátt það sem ég er að hugsa, að týna ekki sjálfri mér sem persónu í þessu foreldrahlutverki,“ segir Emma spurð hvort hún hafi lært af þáttagerðinni eða hvort þetta sé enn eitt verkefnið á langan lista foreldra.

Emma tekur fram að hún greini talsverðan mun á sjálfri sér sem móður með fyrsta og þriðja barn. „Ég var svo upptekin af því að gera allt „rétt“. Ég gerði ótrúlega margt sem var ekki endilega mín leið heldur var þetta eitthvað sem ég hélt að væri mikilvægt og að maður ætti að gera. Með auknum þroska er maður orðinn betri í að setja axlirnar niður og leyfa sjálfum sér að vera og leyfa þeim gildum sem maður hefur sjálfur tileinkað sér að spegla sig í uppeldinu. Mér finnst ég eiga auðveldara með að hafa það að leiðarljósi frá degi til dags þegar ég er að átta mig á því hvað við höfum fram að færa fyrir næsta þátt,“ segir Emma.

Þær leggja ríka áherslu á að predika ekki heldur benda á að allir séu að leggja sig fram í þessu verkefni. Það er er heldur ekki til nein ein rétt leið í foreldrahlutverkinu. „Finndu þína eigin leið og þú ert að gera þitt besta,“ segir María. „Ef þú gleymir nestisboxinu og pollabuxurnar eru orðnar of litlar ertu ekki eina foreldrið sem er þar. Ef þér líður vel sem foreldri hlýturðu að vera betra foreldri. Við þurfum að passa að keppast ekki við að ná markmiðum sem ekki eru manns eigin því þá er maður dæmdur til að gera þetta á hnefanum og það er ekki gaman. Þetta á að vera skemmtilegasta hlutverk sem maður tekur að sér; að fylgjast með börnunum sínum vaxa,“ segir Emma.

„Það er ákveðið vandamál við áheyrendahópinn okkar. Hann er foreldrar. Þeir ná ekki alltaf að hlusta á þáttinn. En við reynum að hafa lengdina hæfilega svo hægt sé að hlusta meðan fólk fer t.d. í göngutúr eða liggur í baði (með læstar dyr),“ segir María og hlær. Þær hvetja foreldra til að hlusta og senda þættinum bréf og síðast en ekki síst væru þær gjarnan til í að heyra í feðrum og reynslusögur þeirra. Andvarpið - hlaðvarp foreldra er að finna á öllum helstu hlaðvarpsveitum og einnig er þátturinn með facebooksíðu.

Hér er hægt að hlýða á hlaðvarpsþættina

Hér er Facebook-síða Andvarps - hlaðvarp foreldra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert