Ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot

Þrír menn hafa verið ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því …
Þrír menn hafa verið ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið að innflutningi á yfir 16 kílógrömmum af kókaíni. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðssaksóknari hefur ákært þrjá menn á þrítugsaldri fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa í félagi staðið að innflutningi á yfir 16 kílógrömmum af kókaíni, ætluðu til sölu og dreifingar í ágóðaskyni. 

Fram kemur í ákærunni að tveir þeirra hafi flogið til Frankfurt í maí á þessu ári og tekið lest þaðan til Amsterdam. Daginn eftir hafi þeir farið, samkvæmt fyrirmælum þriðja mannsins og óþekkts aðila um borð í lestarvagn í Amsterdam, hitt þar tvo óþekkta aðila og tekið hver á móti sinni ferðatöskunni, en í þeim voru fíkniefnin falin undir fölskum botnum.

Þaðan hafi þeir tekið lest aftur til Frankfurt þar sem þeir innrituðu sig og töskurnar í flug til Keflavíkur daginn eftir. Yfirvöld í Frankfurt hafi fundið fíkniefnin í tösku annars þeirra og yfirvöld á Keflavíkurflugvelli í tösku hins. Voru mennirnir báðir handteknir á Keflavíkurflugvelli.

Í ákæru segir að þriðji maðurinn hafi fengið hina tvo til að flytja inn fíkniefnin, látið þeim í té fé til kaupa á flugmiðum og reiðufé til kaupa á gistingu og öðru uppihaldi í ferðinni. Hann hafi gefið þeim fyrirmæli og haft eftirlit með þeim í gegnum samskiptaforrit.

Í ákæru er þess krafist að ákærðu sæti upptöku fíkniefna sem lagt var hald á við rannsókn málsins auk ýmissa muna, sem hald hafi verið lagt á við rannsókn málsins, þ.á m. farsíma og reiðufjár.

Tveir mannanna eru, til viðbótar við hið stórfellda fíkniefnalagabrot, ákærðir fyrir fíkniefnalagabrot fyrir vörslu kókaíns. Þá er þriðji maðurinn ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa um nokkurt skeið aflað sér ávinnings af refsiverðum brotum að fjárhæð 3,1 milljón krónur, sem fundist hafi við húsleit á dvalarstað hans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert