Biskupar harma brot séra Ólafs

Biskuparnir segja óásættanlegt að séra Ólafur Jóhannsson hafi brotið kynferðislega …
Biskuparnir segja óásættanlegt að séra Ólafur Jóhannsson hafi brotið kynferðislega á tveimur fimm kvenna sem lýstu áreiti af hans hálfu, siðferðisbrotum og óásættanlegri hegðun. mbl.isEggert

Biskup Íslands og vígslubiskupar í Skálholti og á Hólum harma að brot af hálfu séra Ólafs Jóhannssonar gegn tveimur fimm kvenna sem lýstu kynferðislegri áreitni, siðferðisbrotum og óásættanlegri hegðun af hans hálfu, hafi átt sér stað. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá biskupunum sem þykir „mjög sárt“ að konurnar hafi þurft að líða fyrir siðferðisbrot af hans hálfu um árabil.

„Það er óásættanlegt að presturinn hafi brotið siðferðilega á konunum meðan hann var þjónandi prestur í þjóðkirkjunni og í samskiptum við þær. Það er einnig sárt að þolendum hefur þótt skorta á að hlustað hafi verið á þær eða ekki fylgst með líðan þeirra af hálfu yfirstjórnar kirkjunnar á þeirri leið sem þær þurftu að ganga,“ segir í yfirlýsingunni.

Ólíðandi að persónuleg mörk hafi ekki verið virt

Konurnar sem um ræðir kærðu Ólaf til úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar. Eftir að úrskurðarnefndin lauk máli sínu áfrýjaði hann til áfrýjunarnefndar úrskurðarmála. Niðurstaðan varð framangreind, að brotið hefði verið gegn tveimur kvennanna. Er brotunum lýst í niðurstöðu nefndarinnar. „Málinu er lokið. Sr. Ólafur hefur verið leystur frá embætti sem sóknarprestur í þjónustu þjóðkirkjunnar með því að embætti hans var lagt niður í vor. Allar konurnar fimm áttu það sameiginlegt að hafa átt í samskiptum við hann í starfi sínu og þjónustu á kirkjulegum vettvangi þar sem þessi siðferðisbrot voru framin,“ segir í yfirlýsingu biskupanna sem segjast trúa frásögnum kvennanna og ólíðandi sé að persónuleg mörk hafi ekki verið virt, þar með virðing fyrir tilfinningum og einkalífi kvennanna.

„Okkur þykir afar sárt að konurnar, sem komu fram, hafi þurft að ganga í gegnum þá eldraun að verja sín eigin mörk og siðferðiskennd á opinberum vettvangi með kærum og öðrum opinberum hætti. Persónuleg mörk eiga með réttu að vera tryggð í siðareglum þjóðkirkjunnar og með skýrum reglum um viðbrögð við siðferðis- og agabrotum þeirra sem starfa í kirkjunni. Teljum við rétt að farið verði yfir þær siðareglur og þær bættar í ljósi þessara siðferðisbrota,“ segir í yfirlýsingunni.

Siðareglur verði bættar og forvarnir efldar

„Kirkjan á að vera öruggur staður fyrir þau sem leita þjónustu hennar og fyrir þau öll sem veita þjónustuna og koma að kirkjulegu starfi, þannig að það verði þeim sjálfum og öðrum til hjálpar, stuðnings og blessunar. Það er ekki aðeins vilji kirkjunnar heldur og hið eiginlega eðli þeirrar þjónustu sem hún á að veita,“ segir þar enn fremur.

Biskuparnir segja að kirkjan skuli leitast við að styðja einstaklinga og samfélag í því að upplýsa og útiloka brot en efla réttlætiskennd, siðgæði og virðingu fyrir mannhelgi.

„Það er einlæg ósk okkar að þær breytingar sem gerðar hafa verið á reglum um meðferð kynferðisbrota og annarra brota verði til góðs. Siðareglur verði bættar, settar verði reglur um siðanefnd og allt verði gert til að hjálpa og styðja þolendur til að ná fram rétti sínum. Forvarnir verði efldar til muna, brot verði stöðvuð og allt starfsfólk kirkjunnar verði meðvitaðra um einkenni eða vísbendingar um siðferðisbrot. Það er hlutverk alls starfsfólks að hlusta og kunna að bregðast við ásökunum með þeim hætti að hið sanna komi í ljós í hverju máli,“ segir í yfirlýsingunni.

Biskuparnir segjast munu beita sér fyrir því að kirkjan nái að bæta lög og starfsreglur um úrskurðar- og áfrýjunarnefndir svo fundin verði betri og virkari úrræði til verndar þolendum kynferðis- og agabrota hið fyrsta. „Þegar grunur er um að brot hafi verið framin er forgangsmál að þolendur fái stuðning kirkjunnar í því að koma kærum til lögreglu og annarra óháðra aðila sem hafa rannsóknarheimildir og ákæruvald. Kirkjan vill vinna faglega að því að hún verði ávallt öruggur staður að sækja og starfa innan,“ segir í yfirlýsingu biskupanna. „Kirkjunni ber að draga lærdóm af þessum atvikum og leggja sig fram um að laga þá ágalla sem komið hafa fram í ferli þessa máls.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert