Bregðast þarf við tali um spillingu

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er óhjákvæmilegt, þegar embættismaður eins og ríkislögreglustjóri lýsir því að spilling ríki innan lögreglunnar, að brugðist sé við. Ég hef rætt þetta við ríkislögreglustjóra sjálfan en tel þó mjög brýnt að svona mál verði ekki leyst í fjölmiðlum, þau verða ekki leyst í fjölmiðlum.“

Þetta sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á Alþingi í dag þar sem hún brást við fyrirspurn frá Guðmundi Andra Thorssyni, þingmanni Samfylkingarinnar, um fund hennar með Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra í morgun, deilur innan lögreglunnar og viðtal við Harald í Morgunblaðinu um helgina. Tók Áslaug undir með Guðmundi Andra að ríkja þyrfti traust. Tryggja þyrfti að stofnanir sem tryggðu öryggi landsmanna virkuðu sem best.

„Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að spilling sé útbreidd innan lögreglunnar. Það er einnig mikilvægt að hafa í huga, þegar þessi umræða kemur upp, að innan lögreglunnar er unnið mikilvægt og gott starf. Traust til lögreglunnar hefur verið mikið enda hefur lögreglan áunnið sér það með faglegum og vönduðum vinnubrögðum,“ sagði Áslaug ennfremur.

„Það breytir því ekki að við þekkjum mál sem hafa komið inn á borð dómstóla og það er mikilvægt að taka á þeim með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir. Jafnframt hafa ýmis skref verið stigin undanfarið til að reyna að draga úr slíkri hættu hjá lykilstofnunum, þar á meðal lögreglu, og við munum auðvitað halda áfram á þeirri braut.“

Þá sagði ráðherrann enn fremur að mikilvægt væri að fram færi gott eftirlit með lögreglunni og þar af leiðandi einnig með ríkislögreglustjóra. „Ég hef sett af stað vinnu í ráðuneytinu til að reyna að bregðast við því ástandi sem er uppi núna í samráði við alla þá aðila sem koma að því. Ég er viss um að þessi mál koma einnig upp eftir þetta viðtal hans.“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði Áslaugu Örnu hvort hún teldi eðlilegt að ríkislögreglustjóri talaði um spillingu innan lögreglunnar, eins og fram hefði komið í viðtalinu í Morgunblaðinu, án þess að gera neitt í því. Sagði ráðherra að henni þætti það ekki eðlilegt. Hún hefði fengið ákveðin svör í þeim efnum frá Haraldi og hún myndi fylgja þeim eftir.

Spurð hvort Haraldur nyti trausts svaraði dómsmálaráðherra: „Ríkislögreglustjóri nýtur trausts eins og aðrir embættismenn og forstjórar og stjórnendur undirstofnana minna. En það segir þó ekki að málið sé ekki alvarlegt.“ Þannig væri óásættanlegt að það ástand sem ríkt hefði innan raða lögreglunnar væri til staðar. Málið yrði allt tekið til íterlegrar skoðunar í kjölfar fundar ráðherrans með ríkislögreglustjóra.

mbl.is