RARIK færir íslenska ríkinu Dynjanda að gjöf

RARIK færði í dag íslenska ríkinu Dynjanda að gjöf í …
RARIK færði í dag íslenska ríkinu Dynjanda að gjöf í tilefni af 75 ára lýðveldisafmæli Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Jörðin, fossinn og fossaröðin geta nýst komandi kynslóðum til lífsviðurværis og um hana legið lífsnauðsynlegir innviðir fyrir mannlíf á Vestfjörðum samhliða því að hún njóti friðunar um ókomna framtíð, sagði Birkir Jón Jónsson, formaður stjórnar RARIK, er hann afhenti íslenska ríkinu með formlegum hætti jörðina Dynjanda við Arnarfjörð.

RARIK færði í dag íslenska ríkinu Dynjanda að gjöf í tilefni af 75 ára lýðveldisafmæli Íslands og tók Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra á móti gjöfinni fyrir hönd ríkisins.

„Með þessari rausnarlegu gjöf RARIK til þjóðarinnar skapast einstakt tækifæri til að tengja jörðina Dynjanda við friðlandið í Vatnsfirði og skapa þannig mikilvæg verðmæti fyrir sunnanverða Vestfirði,“ er haft eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfis- og auðlindaráðherra í fréttatilkynningu.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra og Birkir Jón Jónsson …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra og Birkir Jón Jónsson stjórnarformaður RARIK undirrituðu samkomulag sem á að tryggja útivistar- og náttúruverndargildi jarðarinnar og náttúruvættisins Dynjanda. Ljósmynd/Aðsend

Náttúruvættið Dynjandi ásamt vatnasviði fossanna í Dynjandisá eru innan marka jarðarinnar. Dynjandi er meðal hæstu fossa landsins, nær 100 metra hár, og af mörgum talinn ein af fegurstu náttúruperlum Íslands og er einn helsti viðkomustaður ferðamanna á Vestfjörðum.

Samhliða afhendingu jarðarinnar í dag undirrituðu þeir Guðmundur Ingi og Birkir Jón svo samkomulag milli ríkisins og RARIK. Er markmið þess að tryggja útivistar- og náttúruverndargildi jarðarinnar og náttúruvættisins Dynjanda, en svæðið við Dynjanda er að mestu ósnortið og einkennist af áhrifum jökla sem hafa sorfið landið og skilið eftir sig einstaklega mikinn fjölda vatna og tjarna á Dynjandisheiði.

Kristján Þór Kristjánsson forseti bæjarstjórnar Ísafjarðar sagði gríðarleg tækifæri felast …
Kristján Þór Kristjánsson forseti bæjarstjórnar Ísafjarðar sagði gríðarleg tækifæri felast í náttúrunni fyrir Vestfirðinga. Ljósmynd/Aðsend

Meðal þeirra sem einnig tóku til máls við afhendingu jarðarinnar var Kristján Þór Kristjánsson forseti bæjarstjórnar Ísafjarðar sem sagði gríðarleg tækifæri felast í náttúrunni fyrir Vestfirðinga.

„Við erum umhverfisvottaður, stóriðjulaus og grænn landshluti og þar liggur styrkur okkar og sóknarfæri,“ sagði hann og kvað náttúruna leika stórt hlutverk í þeirri hringtengingu sem nú yrði að veruleika.

mbl.is