„Reynsla okkar og rödd skipti máli“

Elín Sigrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Útfararstofu kirkjugarðanna, er ein þeirra sem …
Elín Sigrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Útfararstofu kirkjugarðanna, er ein þeirra sem kærðu háttsemi Ólafs.

„Við erum ósköp fegnar að þessu máli sé nú loksins lokið og erum þakklátar fyrir þessa yfirlýsingu. Þar kemur fram að sögu okkar sé trúað. Það er okkur mikilvægt. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar var okkur frekar mikið áfall þar sem niðurstaðan var sú að það mætti brjóta einu sinni, en ekki oftar. Við töldum þennan úrskurð ekki réttan,“ segir Elín Sigrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Útfararstofu kirkjugarðanna og ein fimm kvenna sem stigu fram og lýstu kynferðislegri áreitni, siðferðisbrotum og óásættanlegri hegðun af hálfu Ólafs Jóhannssonar, sóknarprests í Grensáskirkju.

Biskup Íslands og vígslubiskupar í Skálholti og á Hólum sendu frá sér yfirlýsingu í dag vegna málsins, í kjölfar fundar með konunum.

Áfrýjunarnefnd úrskurðarmála innan þjóðkirkjunnar úrskurðaði að brotið hefði verið gegn tveimur kvennanna. Í yfirlýsingunni kom fram að hegðun prestsins hefði verið óásættanleg og sárt væri að þolendum hefði þótt skorta á að hlustað hefði verið á þær. Fram kom einlæg ósk biskupanna um að breytingar sem hafi verið gerðar á reglum um meðferð kynferðisbrota og annarra brota verði til góðs. Siðareglur verði bættar, settar verði reglur um siðanefnd og allt verði gert til að hjálpa og styðja þolendur til að ná fram rétti sínum.

Endahnútur bundinn á málið

„Okkar tilgangur hefur aldrei verið annar en að koma upplýsingum um þessa háttsemi til biskupsembættisins og það höfum við gert,“ segir Elín Sigrún. „Málinu er lokið eftir tvö og hálft ár,“ segir Elín Sigrún, en hún var fyrst til þess að kæra háttsemi Ólafs fyrir tveimur og hálfu ári.

Aðspurð segir hún konurnar allar sáttar við yfirlýsingu biskupanna. „Við erum ánægðar og höfum líka átt góða fundi með embættinu þar sem við höfum með opinskáum hætti gert grein fyrir því hvað það hefur verið í þessu ferli sem við höfum talið að mætti betur fara. Á það hefur verið hlustað og við höfum trú á því að reynsla okkar og rödd muni skipta máli varðandi þennan málaflokk til framtíðar,“ segir hún.

Hefur þá verið bundinn endahnútur á málið að ykkar mati?

„Já, frá okkar sjónarhóli. Nú eru rétt tvö og hálft ár frá því að ég kærði og mín kæra var sú fyrsta. Þetta er orðinn gríðarlega langur tími og erfið málsmeðferð á margan hátt,“ segir Elín Sigrún. 

mbl.is