„Þetta var mjög gagnlegur og góður fundur“

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri kemur til fundar við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur …
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri kemur til fundar við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að við séum öll sammála um það að nú verði málefni lögreglunnar leyst innan lögreglunnar með samtölum og að hætt verði að karpa í fjölmiðlum,“ sagði Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri við fjölmiðla að loknum fundi sínum með dómsmálaráðherra nú í hádeginu.

Hefur RÚV eftir Haraldi að fundurinn með ráðherra hafi verið „gagnlegur og góður“ og að orðið starfslok hafi ekki borið þar á góma. Rímar það við það sem Áslaug Arna sagði í samtali við mbl.is eftir fund þeirra Haraldar, en áður hef­ur komið fram að ráðherra hafi sagt starfs­loka­samn­ing við Har­ald vera til skoðunar hjá ráðuneytinu. 

„Ég stíg til hliðar að lokum, það er bara spurning hvenær það verður,“ hefur RÚV eftir Haraldi sem kvað þau hafa farið yfir þau atriði sem rædd hafa verið í fjölmiðlum.

Var Haraldur einnig spurður út í ummæli um spillingu sem höfð voru eftir honum í viðtali í Morgunblaðinu um helgina og sagði hann of mikið gert úr þeim ummælum. Vissulega væru dæmi um að slíkt hefði komið upp, en almennt væri ekki hægt að tala um spillta lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert