Andlát: Haraldur Reynisson

Haraldur Reynisson.
Haraldur Reynisson.

Tónlistarmaðurinn Haraldur Reynisson, Halli Reynis, lést í fyrradag, 15. september, 52 ára að aldri.

Halli fæddist 1. desember 1966 í Reykjavík. Foreldrar hans eru Reynir Haraldsson, múrarameistari og leigubifreiðarstjóri í Reykjavík, fæddur 3. júní 1942, og Jóna Gunnlaugsdóttir, fyrrverandi starfsmaður Ríkisspítalanna, fædd 9. janúar 1935.

Eldri systur Halla eru Hjördís Kristjánsdóttir, f. 1960, og Linda Björk Ólafsdóttir, f. 1961. Tvíburabróðir Halla er Gunnlaugur Reynisson.

Tónlistarferill Halla hófst árið 1991 og starfaði hann að mestu sem trúbador og við tónlist til ársins 2008 þegar hann sneri sér einnig að öðrum störfum.

Hann var afar afkastamikill tónlistarmaður, gaf m.a. út níu sólóplötur og kom sú fyrsta út árið 1993. Hann fór í fjölmargar tónleikaferðir og tók þátt í undankeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva í tvígang; í fyrra skiptið 2011 með lagið Ef ég hefði vængi og aftur árið 2014 með lagið Vinátta.

Halli lauk B.Ed-gráðu sem grunnskólakennari frá HÍ árið 2012 og árið 2015 útskrifaðist hann með meistaragráðu frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hann starfaði við gítarkennslu um árabil og við tónmenntakennslu í Ölduselsskóla í Reykjavík frá árinu 2008 til dánardags.

Fyrir rúmri viku var Halli gestur Hrafnhildar Halldórsdóttur í þættinum Sunnudagssögur á Rás 2 þar sem hann ræddi feril sinn og lífshlaup.

Eftirlifandi eiginkona Halla er Steinunn Margrét Sigurbjörnsdóttir, fædd 28. nóvember 1966. Þau giftu sig árið 1991 og eignuðust þrjá syni: Steinar, f. 19. febrúar 1994, Reyni, f. 22. júlí 1995, og Sölva, f. 11. desember 2005.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »