Börn með kannabisvökva í rafrettu

„Aðgengi að fíkniefnum í dag er gríðarlega auðvelt en að …
„Aðgengi að fíkniefnum í dag er gríðarlega auðvelt en að sjálfsögðu gerum við lögreglumenn okkar besta við að stemma stigu við þessari vá,“ segir í færslu lögreglustjórans á Suðurnesjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglunni á Suðurnesjum bárust í dag nokkrar flöskur af kannabisvökva sem notaður var í rafrettur. Fram kemur í færslu lögreglunnar á Facebook að vökvinn hafi verið í eigu barna sem byrjuð voru að fikta við að reykja vökvann. Foreldrar barnanna voru hins vegar vel á verði og komu vökvanum til lögreglu. Hefðbundin kannabislykt er ekki af vökvanum, heldur frekar sæt lykt, að því er lögreglan bendir á. 

„Fíkniefnadjöfullinn spyr ekki um fjölskyldu- eða heimilisaðstæður né í raun um nokkuð annað. Þessi börn koma öll frá góðum heimilum þar sem röð og regla er á hlutunum,“ segir í færslu lögreglunnar á Suðurnesjum. 

Lögreglan ræddi jafnframt við börnin og hefur eftir þeim að margt ungt fólk reyki kannabisblandaðan rafrettuvökva í dag. 

Er því beint til foreldra að fylgjast með börnum sínum. „Aðgengi að fíkniefnum í dag er gríðarlega auðvelt en að sjálfsögðu gerum við lögreglumenn okkar besta við að stemma stigu við þessari vá. En til að vel takist þá verðum við öll að standa saman,“ segir jafnframt í færslunni.


mbl.is