Brugðust vel við hjálparbeiðni vegna flóða

Starfsmenn Spánarheimila með troðfulla bíla af hjálpargögnum. F.v. Guðmundur Guðmundsson …
Starfsmenn Spánarheimila með troðfulla bíla af hjálpargögnum. F.v. Guðmundur Guðmundsson Kristján Dagur Guðmundsson og Bjarni Haukur Magnússon. Ljósmynd/Aðsend

Íslendingar á Spáni hafa brugðist vel við hjálparbeiðni spænskra yfirvalda vegna tjóns sem mikil flóð af völdum úrhellisrigninga hafa valdið í bæjum á svæðinu. Fyrirtækið Spánarheimili stóð um helgina fyrir sólarhringssöfnun í gegnum Vildarklúbb Spánarheimila, sem samanstendur af hátt í 300 íslenskum fasteignaeigendum orlofshúsa á svæðinu. Tókst hún svo vel að starfsmenn fyrirtækisins í Torrevieja höfðu í gær í nógu að snúast við að koma gögnum í hjálparmiðstöðvar.

„Það eru margir Íslendingar sem eru búnir að kaupa orlofshús á Spáni í gegnum okkur undanfarin ár,“ segir Bjarni Sigurðsson, framkvæmdastjóri Spánarheimila, í samtali við mbl.is. „Þær eignir fóru vel út úr þessu, en margir bæir og þorp í kringum okkur fóru illa út úr þessu.

Húsgögn liggja víða úti á götum í Los Alcazares eftir …
Húsgögn liggja víða úti á götum í Los Alcazares eftir flóðin. Ljósmynd/Aðsend

Margir samstarfsaðilar okkar eru með starfsfólk sem býr í þessum þorpum og svo þekkja margir fasteignaeigendur þar orðið vel til,“ bætir hann við og segir samhuginn mikinn. „Margt  af þessu fólki er búið að vera að heimsækja þessa bæi og þekkir allt umhverfið þannig að þetta stendur því nærri.“

Neyðin mikil hjá mörgum 

Starfsmenn Spánarheimila fóru í gær tvær ferðir með þrjá bíla fulla af bleyjum, matvörum, vatni, þurrmat og öðrum hjálpargögnum í hjálparmiðstöðvar í bæjunum Almoradí og Los Alcazares.

Hermenn að störfum í Almoradí.
Hermenn að störfum í Almoradí. Ljósmynd/Aðsend

Um 6.000 manns eru nú á götunni á svæðinu að sögn Bjarna og neyðin hjá mörgum mikil og er hjálpargögnunum tekið fegins hendi. „Við fengum í gær þakkarbréf frá bæjarstjóranum í Los Alcazares,“ segir hann. Hætt er að rigna og sólin tekin að skína á ný, en flóðavatn er engu að síður enn víða, auk aurs og skemmda sem flóðin hafa valdið.

Nafni hans, Bjarni Haukur Magnússon, starfsmaður Spánarheimila á Torrevieja, var einn þeirra sem fóru með birgðirnar. Hann er í dag búsettur á Spáni eftir að hafa verið þar með annan fótinn  sl. 5-6 ár. „Manni líður vel að geta gefið svona af sér,“ segir hann og kveður það jafnframt hafa verið óþægilega uppgötvun að sjá hversu nærri þetta var.

Flóðavatn liggur enn yfir götum í Almoradí.
Flóðavatn liggur enn yfir götum í Almoradí. Ljósmynd/Aðsend

Kom gangandi grútskítugt í leit að aðstoð

Eftir að hafa stútfyllt bílana af matvælum, hreinlætisvörum og öðru í gærmorgun óku þeir til Los Alcazares sem er skammt frá Torrevieja. Fjöldi sjálfboðaliða var þá þegar kominn í hjálparmiðstöðina. „Þegar þeir voru að hjálpa okkur að bera vörurnar inn sáum við svo hvar strollan af fólki kom gangandi úr bænum í grútskítugum fötum í leit að aðstoð,“ rifjar Bjarni upp og segir þetta hafa verið þá sem hvað verst urðu úti. Þeir hafi komið, sumir hverjir með börn með sér, í leit að vatni, mat og annarri þeirri aðstoð sem var í boði.

Þegar búið var að tæma bílana voru Bjarni og félagar beðnir um að aka niður í miðbæ Los Alcazares með sjálfboðaliða sem ætluðu að aðstoða fólk við að bera út ónýt húsgögn og þrífa. Miðbærinn er lokaður almennri umferð eftir flóðin og segir Bjarni erfitt að lýsa því sem þar blasti við. „Þarna voru húsgögn úti á miðri götu og fólk sem átti lítið eftir.“ Miklar skemmdir hafi verið sjáanlegar og margir sem ekki hafi átt í önnur hús að venda hafi endað á götunni.

Mikið verk er nú framundan við hreinsunarstarf í mörgum bæjum …
Mikið verk er nú framundan við hreinsunarstarf í mörgum bæjum á svæðinu. Ljósmynd/Aðsend

Sama áfall en ólíkar þarfir

Söfnunarféð var ekki uppurið eftir þessa ferð og því var haldið í búðina á ný og bílarnir fylltir, en að þessu sinni var stefnan tekin á bæinn Almoradí sem er innar í landinu.

„Sá bær er ennþá að berjast við flóðavatnið  af því að það rennur ekkert burt,“ segir Bjarni. Þannig sé til að mynda tilgangslaust að dæla upp úr kjöllurum húsa á svæðinu því vatnið renni beint inn aftur.

Kerrur fylltar af helstu nauðsynjum í búðinni.
Kerrur fylltar af helstu nauðsynjum í búðinni. Ljósmynd/Aðsend

Hjálparmiðstöðin í Almoradí er skammt fyrir utan bæinn og sér herinn svo um að flytja birgðir til íbúa á voldugum bílum og bátum. „Þarna vantaði fólk teppi, sængur og annað slíkt,“ segir Bjarni. „Við upplifðum tvo bæi sem lentu í sama áfallinu, en þörfin var mjög ólík.“

Búið var að staðfesta að sjö hefðu farist í flóðunum að sögn Bjarna, sem telur líklegt að sú tala eigi eftir að hækka frekar  á næstu dögum.

mbl.is