„Burstaslög“ og „ástarjátningar“ í borgarstjórn

Harka var í umræðum um samgöngumál í borgarstjórn í kvöld.
Harka var í umræðum um samgöngumál í borgarstjórn í kvöld. mbl.is/Eggert

Til nokkuð harðra orðaskipta kom í sal borgarstjórnar í kvöld þegar samgöngumál voru til umræðu. Baldur Borgþórsson, borgarfulltrúi Miðflokksins, lagði til að borgarstjórn segði upp samningi borgarinnar við Vegagerðina um tilraunaverkefni til eflingar almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu til 10 ára sem gerður var í maí 2012. Samhliða skyldi brýnum úrbótum á helstu samgönguæðum borgarinnar, sem frestað hefði verið vegna samningsins, framhaldið.

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna, sagði samninginn hafa komið til vegna hugmynda þeirra sem að honum stóðu, um að umferð væri ekki að aukast og svo vel gengi með strætó að ekki þyrfti að setja fjármagn í innviði, sem sett hefði verið á frestunarlista.

„Hvaða framkvæmdir eru þetta? Jú, þær eru við Vesturlandsveg, Suðurlandsveg, Kringlumýrarbraut, Reykjanesbraut, stokkur á Miklubraut [...]. Allt þetta var sett í frystikistuna,“ sagði Eyþór og benti á að hagkvæmt hefði verið á þessum tímapunkti fyrir hagkerfið að ráðast í þessar framkvæmdir. Hann vísaði til þess að í samningnum hefði komið fram að framkvæmdirnar hefðu verið settar á listann vegna þess að árið 2012 hefði staðan verið metin þannig að umferð væri að aukast hægt og með auknum almenningssamgöngum myndi enn hægjast á.

„Hver var svo reyndin? Reyndin var sú að tafir jukust gríðarlega, ferðatími jókst gríðarlega. Algjört vanmat á því sem var að gerast í umferðarmálum blasir við á hverju ári,“ sagði Eyþór og benti á að á hverju ári sýndi úttekt á samningnum að hann hefði mistekist. Ekki hefði tekist að auka hlut almenningssamgangna úr 4% í 8% eins og til hafi staðið og hlutur þess ferðamáta stæði í stað. Samkvæmt tölum Vegagerðarinnar hefði hlutfall einkabíls farið hækkandi, úr 74% í 79%, á síðasta ári, frá því samningurinn tók gildi. „Það eru fjögur prósentustig, nákvæmlega sama hlutfall allra almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Eyþór. Þá vísaði hann til þess að borgarbúar hefðu sýnt vilja til að bæta stofnbrautakerfið í könnunum.

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík. mbl.is/Arnþór Birkisson

Eyþór gagnrýndi tölur borgarstjóra „um 400 þúsund farþega“ og sagði að þeir sem notuðu strætó daglega væru aðeins 5%, í mesta lagi. „Eigum við ekki að horfa á þessa mælikvarða, hverjir nota hlutinn daglega? Þ.e.a.s. hverjir bursta tennurnar daglega og hvað við notum mikið tannkrem, en ekki hversu mörg burstaslög fóru fram eitthvert kvöldið. Það skiptir engu máli ef þú ert að selja tannkrem, heldur bara hversu margir nota og hvað þeir nota mikið,“ sagði Eyþór.

„Ástarjátning til einkabílsins“

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, veitti ræðu Eyþórs andsvar og sagði að hún hefði aldrei heyrt hvílíka „ástarjátningu til einkabílsins.“

„Það er gott að sjá Sjálfstæðisflokkinn afhjúpa sig sem einkabílsflokkinn sem hann er og við vitum öll að hann er. Það er gott að allir kjósendur viti það. Ég sá hjörtu fljúga upp af höfði borgarfulltrúans Eyþórs Laxdal Arnalds og það er magnað að sjá manneskju standa hér í pontu og segja að það sé ekki búið að auka nægilega innstig í strætó, en tala á sama tíma um að við þurfum að setja minni pening í strætó. Ég skil ekki þessa hugsun. Er heil hugsun hér að baki? Hvaða vitleysa og rugl,“ sagði hún.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata. mbl.is/Hari

Dóra gagnrýndi ræðu Eyþórs um að byggja þyrfti á gögnum en að á sama tíma talaði hann um viðhorf almennings sem „sannleik um það sem best væri að gera.“ Hún kvaðst t.a.m. frekar myndu leita til læknis heldur en að spyrja nágranna sinn um hvaða lyf hún ætti að taka.

„Viðhorf almennings skipta verulegu máli þegar kemur að lýðræðislegum spurningum, en þau eru ekki gögn um það hvað er sannleikur og hvað er sniðugt að gera. Gögnin sýna það [...] að slaufur eins og hér eru lofsamaðar, auka umferð frekar en að minnka hana. Þó að viðhorf almennings sé þannig að hann sé orðinn örvæntingafullur og vilji bæta í stofnvegaframkvæmdir, þá er það ekki að fara að leysa umferðateppurnar sem fólk situr í á morgnana. Það sem leysir þær er að bæta almenningssamgöngur og efla strætó, en ekki að skera lífæðina á strætó. Þetta er svo mikið þrugl og rugl, að það er vandræðalegt að koma hingað upp, en einhver varð að segja eitthvað,“ sagði hún.

Ásakanir hitti mann sjálfan fyrir

Eyþór sagði að viðhorf almennings væri meðal gagna sem Vegagerðin hefði aflað. „Ég hefði haldið að Pírati teldi það lýðræðislegt að spyrja almenning, hlusta á almenning og rýna þær stórkostlegu breytingar sem orðið hafa á undanförnum árum á viðhorfi almennings,“ sagði hann. Þar að auki kvaðst Eyþór, vegna ummælanna um ástarjátningu, sjálfur ganga tíu kílómetra á dag og hafa keyrt vistvænan rafmagnsbíl í fimm ár. Spurði hann Dóru Björt hve langt hún labbaði á hverjum degi. „Allar svona ásakanir hitta mann sjálfan fyrir ef maður sýnir ekki gott fordæmi,“ sagði hann.

Dóra Björt sagði að á fyrstu sex mánuðum þessa árs hefðu „400 þúsund fleiri stigið inn í strætó.“ Því næst lagði hún áherslu á skoðun sérfræðinga í umferðarmálum. „Við þurfum að skoða raunveruleg gögn, staðreyndir, sannleika um það sem sýnt hefur verið fram á að dragi úr umferð. Ekki spyrja næsta mann um hvað honum dettur í hug,“ sagði hún.

„Það hefur ekki farið fram hjá neinum einstaklingi á þessu landi að Eyþór Arnalds keyri um á rafbíl. Við höfum heyrt það mjög oft. Það er mjög áhugavert, ég vissi ekki að þessi umræða fjallaði um það, en gott hjá þér. Flott hjá þér,“ sagði Dóra Björt áður en Eyþór Arnalds svaraði andsvari. Framhald umræðnanna má sjá hér, en þar kennir ýmissa grasa.

mbl.is