Fékk sjálfur að mæta fyrr til að sækja börnin

Alexander Witold Bogdanski, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Alexander Witold Bogdanski, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd/Aðsend

Brýnt er að borgarstjórn sendi skýr skilaboð um að taka verði á vaxandi umferðarvanda í borginni að mati borgarstjórnarhóps Sjálfstæðisflokks, en samþykkt var í dag að vísa tillögu Alexanders Witold Bogdanski, varaborgarfulltrúa flokksins og formanns Samtaka Pólverja á Íslandi, um fleytitíð- og sveigjanlegan afgreiðslutíma, til umhverfis- og skipulagssviðs.

Alexander Witold kveðst ánægður að vel hafi verið tekið í tillöguna enda sé brýnt að leita lausna á umferðarmálum að því er fram kemur í tilkynningu borgarstjórnarhópsins. Hann hefur sjálfur reynslu af því að sneiða hjá umferðarhnútum í borginni með áþekkri hugmyndafræði að því er þar kemur fram.

Auki sveigjanleika afgreiðslutíma stofnana og fyrirtækja borgarinnar

Tillagan sem um ræðir gerir ráð fyrir að minnka álagstoppa í umferð með því að auka sveigjanleika afgreiðslutíma stofnana og fyrirtækja borgarinnar og stuðla jafnframt að því að aðrir atvinnurekendur geri slíkt hið sama. Í greinargerð með henni segir að skipulagshalli sé „mikill í borginni sem sést hvað best á því hvað umferð er þung inn í miðborgina að morgni og út úr henni síðdegis. Langar raðir bíla fylla aðra akrein stofnvega á meðan hin akreinin er nær tóm. Álagstoppar eru sífellt erfiðari og er nauðsynlegt að dreifa álagi.“

„Ég sem íbúi í Grafarvogi finn fyrir mikilli óánægju í mínu hverfi vegna mikillar umferðar. Og áður var ég um fjörutíu mínútur að komast í og úr vinnu, bæði á morgnana og síðdegis, samtals áttatíu mínútur daglega,“ er haft eftir Alexander Witold sem bætir við að hann þekki þessa hugmyndafræði af eigin raun enda hafi hann fengið leyfi frá atvinnurekanda sínum til að mæta klukkan sjö að morgni og fara fyrr úr vinnu svo hann hefði tök á að sækja börn sín úr leikskóla.

Í bókun Sjálfstæðisflokksins við málið segir: „Aukinn sveigjanleiki í afgreiðslutíma stofnana og fyrirtækja borgarinnar með það fyrir augum að minnka álagstoppa í umferð, er ein af þeim aðgerðum sem hægt er að framkvæma með tiltölulega litlum tilkostnaði á stuttum tíma. Skipulagshalli er gríðarmikill í borginni sem sést hvað best á því hvað umferð er þung inn í miðborgina að morgni og út úr henni síðdegis. Langar raðir bíla fylla aðra akrein stofnvega á meðan hin akreinin er nær tóm. Álagstoppar eru því sífellt erfiðari og er nauðsynlegt að dreifa álagi eins og unnt er. Hugmyndir um aukinn sveigjanleika hafa verið lengi í umræðunni en ekki hefur tekist að ná þeim árangri sem stefnt var að.“

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, tekur vel í hugmyndina að því er fram kemur í færslu á Facebook-síðu hans sem fylgir hér að neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert