Fluttur með þyrlunni eftir flugslys

Flak vélarinnar fannst á Skálafellsöxl á fimmta tímanum en flugmaðurinn …
Flak vélarinnar fannst á Skálafellsöxl á fimmta tímanum en flugmaðurinn kom gangandi á móti björgunarmönnum um klukkutíma áður. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti slasaðan flugmann á Landspítalann eftir flugslys við Móskarðshnjúka en tilkynnt var um atvikið á fjórða tímanum. Um er að ræða eins hreyfils vél og var flugmaðurinn einn um borð. 

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst boð frá neyðarsendi vélarinnar laust fyrir klukkan þrjú. Þá hafði einnig verið tilkynnt um dökkan reyk sem barst frá svæðinu. „Í kjölfarið voru viðbragðsaðilar kallaðir út. Þyrlan fann flugmanninn korter fyrir fjögur og kom hann þá gangandi að áhöfn þyrlunnar og var í kjölfarið fluttur með þyrlu gæslunnar á Landspítalann í Fossvogi,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is. 

Þyrlan lenti með flugmanninn við Landspítalann skömmu fyrir klukkan fjögur.
Þyrlan lenti með flugmanninn við Landspítalann skömmu fyrir klukkan fjögur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu er talið að flugmaðurinn, sem var einn um borð í lítilli eins hreyfils vél, hafi nauðlent á toppi Skálafells. 

Flak flugvélarinnar er á toppi Skálafells og vinnur áhöfn þyrlunnar nú að því að flytja fulltrúa frá tæknideild lögreglunnar og fulltrúa rannsóknarnefndar samgönguslysa að flugvélaflakinu. 

Ekki er hægt að segja til um líðan mannsins og getur lögregla ekki veitt frekari upplýsingar að svo stöddu. 

Móskarðshnjúkar.
Móskarðshnjúkar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert